Íslands- og Evrópubikarmeistarar Vals í handknattleik kvenna unnu ÍBV, 33:23, í æfingaleik í N1-höllinni í gær. Valur var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 18:14. „Liðið lék á stórum köflum vel og fengu margar ungar og efnilegar stelpur tækifæri og stóðu sig vel,“ segir í tilkynningu Vals.
Næst á dagskrá Valsliðsins eru æfingabúðir í Portúgal.
Breytingar á báðum liðum
Nokkrar breytingar hafa orðið á Valsliðinu frá síðustu leiktíð. Hildigunnur Einarsdóttir og Sigríður Hauksdóttir hættu keppni í vor og Elín Rósa Magnúsdóttir gekk til liðs við þýska liðið Blomberg-Lippe og Silja Arngrímsdóttir markvörður flutti á ný heim til Færeyja. Auk þess er nýr þjálfari í brúnni, Anton Rúnarsson. Hann leysti Ágúst Þór Jóhannsson af er hinn síðarnefndi tók við þjálfun karlaliðs Vals.
Mikill efniviður er fyrir hendi hjá Val og margar stúlkur léku með yngri landsliðunum á Evrópumótum í sumar.
Einnig hefur orðið breyting á leikmannahópi ÍBV frá síðasta tímabili og yngri leikmenn tekið við stærri hlutverkum. Auk þess sneru Sandra Erlingsdóttir og Amelía Dís Einarsdóttir heim frá Evrópu og markvörðurinn Amalie Frøland leysti Marta Wawrzynkowska markvörð af.
Auk Wawrzynkowska hafa Karolina Olszowa, Sunna Jónsdóttir og Herdís Eiríksdóttir róið á önnur mið.
ÍBV var einnig með leikmenn í yngri landsliðunum á stórmótum sumarsins.
Konur – helstu félagaskipti 2025