„Þegar menn hafa óbilandi trú á að leysa verkefnið hvernig sem gengur þá verður niðurstaðan eins og þessi. Liðsheildin okkar vann þennan leik,“ sagði Tandri Már Konráðsson, fyrirliði Stjörnunnar, í samtali við handbolta.is eftir að liðið vann Selfoss í síðari leik liðanna í átta liða úrslitum Olísdeildar karla í handknattleik á Selfossi í kvöld, 30:28. Þar með tryggði Stjarnan sér sæti í undanúrslitum og það í fyrsta sinn í sögu sinni.
Það blés ekki byrlega fyrir Stjörnunni þegar 20 mínútur voru til leiksloka og liðið var fjórum mörkum undir.
„Við unnum svo sannarlega fyrir þessu. Það fallega við þessa íþrótt er að það er engu hægt að slá föstu fyrr en flautað hefur verið til leiksloka. Sama hversu slæm staðan er þá er alltaf einhver möguleiki,“ sagði Tandri Már glaður í bragði og skal engan undra enda hluti af því liði Stjörnunnar sem hefur skrifað kafla í sögu handknattleiksdeildarinnar með því að komast í undanúrslit.
Stoltur vera með í þessu
„Við ætluðum að toppa á réttum tíma og þótt síðasti leikur hafi ekki verið sá besti þá tókst okkur að minnsta kosti að toppa liðsheildina. Það er ótrúlega gaman að vera hluti af því liði sem nær þessum áfanga. Við höfum hinsvegar ekki fengið nóg. Við ætlum okkur lengra þótt við mætum sterku liði Hauka í næstu umferð. Það er alveg ljóst,“ sagði Tandri Már Konráðsson, fyrirliði Stjörnunnar, í samtali við handbolta.is í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld.