Uppselt er á viðureign Íslands og Eistlands í undankeppni Evrópumóts karla í handknattleik sem fram fer í Laugardalshöll á næsta sunnudag. Í tilkynningu frá Handknattleikssambandi Íslands í dag segir að síðustu aðgöngumiðarnir hafi selst fyrir hádegið. Þar með er uppselt í annað sinn í röð á leik A-landsliðs karla í handknattleik í Laugardalshöll nokkrum dögum fyrir leik.
Svipað var upp á teningnum fyrir viðureign Íslands og Tékklands 12. mars. Þá seldust síðustu miðarnir á fjórum dögum áður en að leiknum kom. Nú er nærri vika í leikinn við Eistland. Rúmlega 2.000 aðgöngumiðar voru í boði á hvorn leik. Enginn vafi leikur á að hægt væri að selja talsvert fleiri miða og víst að Handknattleikssambandið verður af talsverðum tekjum.
Síðasti heimaleikurinn
Rífandi góð stemning verður í Laugardalshöll á sunnudaginn þegar Eistlendingar koma í heimsókn. Flautað verður til leiks klukkan 16. Um er að ræða síðasta leik íslenska landsliðsins í undankeppni EM 2024. Íslenska landsliðið er svo gott sem öruggt um sæti í lokakeppninni sem fram fer í Þýskalandi í janúar á næsta ári.
Uppselt hefur verið á alla heimaleiki A-landsliðs karla sem fram hafa farið eftir að samkomutakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins var aflétt snemma á síðasta ári. Áður var leikið í Ásvöllum m.a. gegn Austurríki í undankeppni HM í apríl í fyrra.