- Auglýsing -
- Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari Melsungen í Þýskalandi og landsliðsþjálfari Íslands í karlaflokki, krækti m.a. í þýsku landsliðsmennina Tomi Kastening og Silvio Heinevetter í sumar. Sá síðarnefndi hefur árum saman verið markvörður Füchse Berlin. Fleiri leikmenn bættust í hópinn hjá Melsungen m.a. landsliðsmaðurinn Arnar Freyr Arnarsson en hann hafði samið um að koma til liðsins snemma á síðasta keppnistímabili.
- Tveir leikmenn Melsungen greindust með covid19 í lok ágúst, fyrrgreindur Heinevetter og Tim Lemke, báðir landsliðsmenn. Þeir gátu þessvegna ekki leikið með liðinu þegar það tapaði fyrir Bjerringbro/Silkeborg í fyrstu umferð undankeppni Evrópudeildarinnar á síðasta sunnudag, 31:27. Síðari viðureignin fer fram á heimavelli Melsungen um næstu helgi.
- Aðalsteinn Eyjólfsson, nýr þjálfari Kadetten Schaffhausen í Sviss, krækti í örvhenta landsliðsmanninn Michael Kusio á dögunum. Kusio, sem er 196 sentímetrar og 98 kíló að þyngt, á að baki sex A-landsleiki auk leikja fyrir yngri landslið Sviss. Hann hefur leikið með BSV Bern frá 16 ára aldri og þótti kominn tími til þess að takast á við nýjar áskoranir á handboltavellinum.
- Aðalsteinn lét ekki þar við sitja heldur náði hann einnig í Þjóðverjann Erik Schmidt frá Magdeburg. Schmidt, sem er 27 ára gamall og var í sigurliði Þýskalands á EM2016, er ætlað að leysa af Zoran Markovic sem meiddist illa á dögunum og verður frá keppni um nokkuð langt skeið. Schmidt skrifaði undir tveggja ára samning við svissnesku meistarana.
- Frakkinn Thierry Anti tók við þjálfun franska liðsins PAUC fyrir skömmu, ári áður en til stóð. Anti, sem er 61 árs gamall, stýrði Sporting Lissabon á síðustu leiktíð. Anti er sennilega þekktastur sem þjálfari Nantes í tíu ár, frá 2009 til 2019. Undir stjórn Anti komast Nantes m.a. óvænt í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu 2018. Kristján Örn Kristjánsson gekk til liðs við PAUC í sumar og verður spennandi að sjá hvernig hann mun áfram þroskast sem handknattleiksmaður undir stjórn hins þrautreynda og yfirvegaða franska þjálfara.
- Slóvenski landsliðsmaðurinn Borut Mackovsek kvaddi herbúðir Veszprém í sumar og gekk til liðs við erkifjendurna í Pick Szeged en þessi lið hafa árum saman verið tvö sterkustu handknattleikslið Ungverjalands í karlaflokki.
- Á hinn bóginn þá fór örvhenta spænska stórskyttan Jorge Maqueda frá Pick Szeged yfir til Veszprém í sumar. Honum er ætlað að fylla upp í veikleika sem voru á liði Veszprém á síðustu leiktíð þegar það þótti ekki hafa yfir að ráða nægilega öflugri örvhentri skyttu. Maqueda hefur verið fastamaður í landsliði Evrópumeistara Spánar síðustu árin. Hann kom til Szeged fyrir tveimur árum frá Vardar í Skopje.
- Eftir tveggja ára veru hjá Vardar, þar sem hann varð m.a. í sigurliði Meistaradeildarinnar vorið 2019, þá ákvað Slóveninn Stas Skube að flytja til Hvíta-Rússlands og semja við Meshkov Brest.
- Nicolas Tournat yfirgaf HBS Nantes í heimalandi sínu Frakklandi í sumar og gekk til liðs við Kielce í Póllandi. Tournat lék talsvert hlutverk hjá Nantes þegar liðið komst mörgum að óvörum í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu fyrir tveimur árum.
- Danski línumaðurinn Anders Zachariassen mátti ekki leika með GOG í fyrsta leik liðsins á keppnistímabilinu í Danmörku vegna þess að hann átti eftir að taka út leikbann frá 2014. Hann fékk leikbann í síðasta leik sínum með SönderjyskE vorið 2014. Um sumarið gekk hann til liðs við Felnsburg í Þýskalandi hvar hann hefur leikið allt í vor hann gekk til liðs við GOG. Menn gleyma ekki gömlu leikbanni í Danmörku og þess vegna varð Zachariassen að fylgjast úr stúkunni þegar GOG vann Otterup HK auðveldlega, 37:24, í bikarkeppninni.
- Marga rak í rogastans þegar spurðist út að franski landsliðhornamaðurinn örvhenti, Luc Abolou, samdi við Noregsmeistara Elverum í sumar. Hann á að fylla skarð sem Sigvaldi Björn Guðjónsson skilur eftir sig við flutninginn til Kielce í Póllandi. Reyndar var undrun forráðamanna Elverum svo mikil þegar þeim barst boð frá umboðsmanni Frakkans að þeir töldu í fyrstu að um svikapóst væri að ræða.
- Örvhenti hornamaðurinn frá Slóveníu, Blaz Janc, er nú orðinn liðsmaður Barcelona á Spáni og því samherji Arons Pálmarssonar. Honum er ætlað að fylla skarð Viktor Tomas sem lagði skóna á hilluna í vor. Janc er 23 ára gamall og var m.a. valinn í úrvalslið EM 2020 sem fram fór í upphafi árs. Hann lék áður með Kielce í Póllandi og var Sigvaldi Björn Guðjónsson fenginn í hans stað hjá pólsku meisturunum.
- Auglýsing -