- Auglýsing -
Tekin var sú tímamótaákvörðun á fundi framkvæmdastjórnar Handknattleikssambands Evrópu, EHF, í Ljubljana í gær að fella niður hina svokölluðu útivallarmarkareglu í öllum Evrópumótum félagsliða á vegum EHF frá og með næsta keppnistímabili.
Reglan gengur út á að sé markatala í tveimur leikjum liða jöfn, eins og stundum á sér stað, þá hefur liðið sem skorar fleiri mörk á útivelli haldið áfram í næstu umferð en hitt setið eftir.
Í staðinn fyrir útivallarmarkaregluna verður gripið til vítakeppni þar til hrein úrslit liggja fyrir.
Þessi breyting verður einnig tekin upp fyrir undankeppni allra landsliða í keppni á vegum EHF, sambærileg þeirri sem íslenska karlalandsliðið tók þátt í á dögunum þegar keppt var um sæti á HM á næsta ári með tveimur leikjum, heima og að heiman.
- Auglýsing -