Hálfdan Daníelsson, Hafnfirðingur sem búsettur er í Sydney í Ástralíu, sendi handbolta.is eftirfarandi pistil. Kærar þakkir Hálfdán.
Ég spilaði handbolta með Haukum upp alla yngri flokkana, annan flokk síðan með Fram. Ég spilaði svo í meistaraflokki með ÍR, Fjölni og Þrótti.
Ég flutti með Höllu Rós kærustu minni til Sydney, New South Wales, í Ástralíu í apríl 2019. Með því fyrsta sem ég gerði var að leita að handboltaliði. Í ljós kom að Sydney Uni er í göngufjarlægð frá okkur og hef ég æft með þeim síðan.
Flest þau félög sem spila handbolta hér eru á einhvern hátt tengd háskólum. Þar af leiðandi er stór hluti leikmanna í námi í Ástralíu en ekki er nauðsynlegt að vera í námi til að æfa eða spila með þessum liðum. Meirihluti leikmannanna sem ég æfi með eru frá Evrópu og hafa spilað handbolta í sínu heimalandi. Þeir eins og ég vilja komast á handboltaæfingu þrátt fyrir að vera staddir hinum megin á hnettinum.
Nýkrýndur deildameistari
Í deildinni eru spilaðar þrjár umferðir, einn leikur í viku í Sydney. Tímabilinu er ný lokið þar sem við erum deildameistarar í Sydney. Næsta mót framundan er í fylkinu Queensland. Liðið sem stendur uppi sem sigurvegari á því móti vinnur sér þátttökurétt á Super Globe hjá Alþjóða handknattleikssambandinu (IHF) sem er skilgreint sem heimsálfumót félagsliða.
Barcelona hefur oftast unnið Super Globe eða fimm sinnum. Það væri frábært að fá tækifæri til spila á móti Aroni Pálmarssyni í Barcelona en ég hef ekki spilað á móti honum síðan ég var 17 ára í Haukunum. Annars er góður möguleiki á að fá tækifæri til þess að spila á móti stærstu félögunum í Evrópu eins og Füchse Berlin, Veszprém og RK Vardar svo einhver lið séu nefnd. Sydney Uni hefur tekið þátt í þessu móti frá 2012 og það er lögð mikil áhersla hjá félaginu að komast þangað. Þrátt fyrir að félaginu hafi gengið vel og stefni á þetta mót má segja það sama um hin liðin sem leggja allt í kapp til að vinna Sydney Uni.
Annarskonar handbolti
Í íþróttatímum í grunnskólum í Ástralíu er spilaður leikur sem þeir kalla handbolta. Í leiknum er staðið á kassa með skopparabolta og leikmenn slá boltanum í annan kassa. Oft myndast því misskilningur þegar ég segi Áströlum að ég æfi handbolta. Það er til vinsælt myndband á YouTube þar sem Kevin Rudd, fyrrverandi forsætisráðherra Ástralíu, skorar á fólk til að keppa við sig í þeirri íþrótt. Það væri því gaman ef að ég skoraði á hann í vítakeppni til þess vekja áhuga Ástrala á „alvöru“ handbolta.
Sigldi um hafnarsvæðið
Ég er skipstjórnarmenntaður og hef verið að vinna síðastliðna mánuði hjá skipa- og bátaþjónustu Noakes Group og um helgar á skemmtibátum sem sigla í hafnarsvæðinu við Sydney. Halla Rós, kærastan mín, er í doktorsnámi í lífvísindum. Ég varð atvinnulaus þegar covid faraldurinn skall á og allt lokaðist. Það var ekki einfalt að takast á við þessa skrítnu tíma, atvinnulaus á ókunnugum stað en handboltinn hjálpaði mér mikið.
Aukaæfingar í ástandinu
Hér eins og annars staðar í heiminum hefur verið tveggja metra regla og samkomubann. Það var því mikilvægt að hafa hvatningu og finna tækifæri sem fólust í þessu skrítna ástandi sem hér hefur ríkt eins og annars staðar í heiminum. Ég setti mér því það markmið að gera fjölbreyttar aukaæfingar og vera tilbúinn í slaginn þegar æfingar byrjuðu aftur. Það var því góð tilfinning þegar handboltinn byrjaði aftur að vera tilbúinn til að takast á við nýjar áskoranir.