- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Væri til í að vinna einn bikar með Melsungen

- Auglýsing -


Landsliðsmaðurinn Arnar Freyr Arnarsson er mættur í slaginn með íslenska landsliðinu á nýjan leik eftir langa fjarveru vegna meiðsla. Arnar Freyr tognaði í aftanverðu læri í vináttulandsleik við Svía nokkrum dögum fyrir heimsmeistaramótið í janúar. Hann var frá keppni með landsliðinu og þýska liðinu MT Melsungen í hálfan fjórða mánuð en innan við tvær vikur eru liðnar frá fyrsta leiknum eftir fjarveruna löngu.


„Þetta var langur tími en að sama skapi frábært að vera mættur út á völlinni aftur,“ sagði Arnar Freyr þegar handbolti.is hitti hann að máli fyrir æfingu landsliðsins í Víkinni í morgun.

„Ég fékk góðan tíma til að ná mér góðum. Menn vildu hafa varann á sér svo að þetta gerðist ekki aftur,“ sagði Arnar Freyr sem gerði tilraun til að hefja leik aftur í byrjun mars. Þá kom í ljós að hann hafði ekki jafnað sig og við tók áframhaldandi endurhæfing.


Arnar Freyr segist hafa reynt að nýta tímann eins vel og kostur var á enda veitir ekki af því margir leikir eru framundan með MT Melsungen áður leiktímabilið verður úti.

Melsungen er í öðru sæti þýsku 1. deildarinnar jafnt efsta liðinu, Füchse Berlin, að stigum þegar sex umferðir eru eftir. Til viðbótar er Melsungen í undanúrslitum Evrópudeildarinnar en svo langt hefur lið félagsins aldrei náð. Leikið verður til úrslita í Hamborg 24. og 25. þessa mánaðar.

„Það er nóg af leikjum eftir og við erum ennþá inni í tveimur keppnum. Við verðum heldur betur að gefa í. Það væri slæmt fyrir okkur að misstíga okkur á lokasprettinum. Það er ekki oft sem maður á svona marga leiki eftir þegar komið er fram í maí. Ég er ánægður með að hafa jafnað mig til þess að ná sem flestum leikjum áður en kemur að sumarleyfi. Ég væri til í að vinna einn bikar með Melsungen,“ segir Arnar Freyr en félagið á sér ekki langa sögu í fremstu röð.

Arnar Freyr er samningsbundinn MT Melsungen í ár til viðbótar.

Lengra viðtal við Arnar Frey er í myndskeiði hér fyrir ofan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -