- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valskonur geta borið höfuðið hátt eftir naumt tap

Valur, meistarar meistaranna 2023 og Íslandsmeistari. Mynd/Ívar
- Auglýsing -

Íslandsmeistarar Vals geta borið höfuðið hátt innan vallar sem utan þrátt fyrir eins marks tap fyrir rúmenska liðinu HC Dunarea Braila, 30:29, fyrri viðureigninni í fyrstu umferð undankeppni Evrópudeildarinnar í handknattleik kvenna í Origohöllinni í kvöld. Rúmenska liðið var þremur mörkum yfir í hálfleik, 15:12.


Í frábærri umgjörð og rífandi góðri stemningu í Origohöllinni átti Valsliðið alskostar við andstæðingi sínum, þrautþjálfuðum atvinnumönnum og landsliðskonum af ýmsu þjóðernum. Síðari viðureignin fer fram í Braila í Rúmeníu á laugardaginn.
Samanlagður árangur í leikjunum ræður því hvort liðið fer í síðari umferð undankeppninnar.

Áhorfendamet?

Nokkuð öruggt er að fleiri áhorfendur hafa ekki mætt á leik í Evrópukeppni félagsliða í kvennaflokki hér á landi. Uppgefin áhorfendafjöldi Vals er 700 en því miður hefur það oft verið raunin í gegnum tíðina að erfitt hefur reynst að fá áhorfendur á Evrópuleiki í kvennaflokki. Valur bjó að reynslu frá síðasta ári þegar karlaliðið stóð í ströngu. Ljóst er að sú reynsla skilaði sér að þessu sinni.

Skrekkur var í leikmönnum Vals á fyrstu mínútum leiksins. Eftir að hann rjátlaðist af leikmönnum héldu Valsarar í við leikmenn Dunarea Braila. Gestirnir voru yfirleitt á undan að skora og náðu á tíðum tveggja til þriggja marka forskoti. Leikmenn Vals létu það ekki buga sig. Þeir héldu stanslaust áfram að berjast í vörn sem sókn og uppskáru fín úrslit og voru grátlega nærri jafntefli.

Valsliðið vann upp þriggja marka forskot undir lokin og jafnaði, 25:25, og var með leikinn í járnum allt til loka. Valur átti næst síðustu sókn leiksins en skot Theu Imani Sturludóttur var varið 15 sekúndum fyrir leikslok.

Mörk Vals: Thea Imani Sturludóttir 8, Lilja Ágústsdóttir 6, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 6, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 4, Hildigunnur Einarsdóttir 2, Morgan Marie Þorkelsdóttir 1, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 1, Elín Rósa Magnúsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 5, 27,8% – Hafdís Renötudóttir 4, 22,7%.
Mörk Dunarea Braila: Maria Kanaval 6, Aneta Udristioiu 5, Jelena Zivkovic 5, Mireya Gonzalez Alvarez 5, , Cristina Andreea Popa 3, Meike Schmelzer 2, Kristina Liscevic 2, Jessica Ribeiro 1, Mariam Nadia Mohamed 1.
Varin skot: Elena Serban 11, 28,9% – Ana Maria Cristea 0.

Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -