Valur átti ekki í teljandi vandræðum með Stjörnuna í fyrstu viðureign liðanna í átta liða úrslitum úrslitakeppni Olísdeildar karla í handknattleik í N1-höllinni á Hlíðarenda í kvöld. Þegar upp var staðið munaði níu mörkum á liðunum, 30:21. Staðan í hálfleik var 14:12. Næsta viðureign fer fram í Hekluhöllinni á þriðjudagskvöldið.
Valsmenn gerðu út um leikinn á fyrstu 10 mínútum síðari hálfleik. Þeir skoruðu sex af fyrstu sjö mörkunum. Þar með misstu leikmenn Stjörnunnar móðinn. Þeir áttu í töluverðum erfiðleikum gegn góðri vörn Vals. Einnig var Björgvin Páll Gústavsson markvörður Vals frábær. Hann skartaði aflituðu ljósu hári að þessu sinni. Hvort það sló leikmenn Stjörnunnar út af laginu skal ósagt um látið. Víst er að Stjörnumenn verða að gera mikið betur á þriðjudagskvöld ætli þeir sér að knýja fram oddaleik í þessu einvígi.
Kristófer Máni Jónasson, hægri hornamaður Vals, rakst harkalega á Tandra Má Konráðsson leikmann Stjörnunnar á sjöundu mínútu síðari hálfleiks og fékk slæma byltu.
Mörk Vals: Ísak Gústafsson 6, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 4/2, Bjarni í Selvindi 4, Þorgils Jón Svölu Baldursson 4, Allan Norðberg 3, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 3, Andri Finnsson 2, Daníel Örn Guðmundsson 1, Agnar Smári Jónsson 1, Magnús Óli Magnússon 1, Viktor Sigurðsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 16/1, 48,5% – Arnar Þór Fylkisson 2, 40%.
Mörk Stjörnunnar: Jóel Bernburg 7, Tandri Már Konráðsson 3/2, Pétur Árni Hauksson 3, Daníel Karl Gunnarsson 2, Jóhannes Bjørgvin 2, Egill Magnússon 2, Rytis Kazakevicius 1, Ísak Logi Einarsson 1.
Varin skot: Sigurður Dan Óskarsson 7, 25,9% – Daði Bergmann Gunnarsson 6, 37,5%.
Tölfræði HBStatz.
Olís karla: Leikjadagskrá, úrslitakeppni 2025