- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valsmenn halda uppteknum hætti – gott veganesti

Valsmenn geta verið stoltur af frammistöðu sinni gegn Lemgo. Mynd/HSÍ
- Auglýsing -

Íslandsmeistarar Vals unnu í kvöld meistarakeppni HSÍ handknattleik kala þegar þeir lögðu deildarmeistara síðasta árs, Hauka, örugglega, 28:24, í Origohöllinni á Hlíðarenda. Sigurinn er gott veganesti fyrir Valsmenn sem halda í fyrramálið út til Króatíu þar sem þeir mæta RK Porec í tvígang um helgina í 1. umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik.


Valsmenn voru sterkari í leiknum í kvöld frá upphafi til enda. Varnarleikur liðsins var afar góður og Björgvin Páll Gústavsson vel á verði í markinu, ekki síst í fyrri hálfleik þegar hann varði 10 af 16 skotum sínum. Valur var með frumkvæðið í fyrri hálfleik og hafði þriggja marka forskot, 15:12, þegar fyrri hálfleikur var úti.

Agnar Smári Jónsson og Björgvin Páll Gústavsson markvörður með bikarinn í meistarakeppninni. Mynd/HSÍ


Haukar voru þungir þótt ákefðina hafi ekki vantað. Mikið var um slæmar sendingar manni á milli sem gaf Val kost á hröðum upphlaupum hvað eftir annað í leiknum. Segja má að Haukar hafi aldrei náð að ógna Val í leiknum og síðustu tíu mínúturnar virtust öll vötn falla til Hlíðarenda.

Leikmenn Vals fagna að leikslokum í Origohöllinni. Mynd/HSÍ


Sem fyrr segir var varnarleikur Valsmanna góður. Þeir misstu Einar Þorstein Ólafsson meiddan á hné út af í fyrri hálfleik. Kom hann ekkert meira við sögu. Vonir standa til þess að meiðslin séu ekki alvarleg. Alltént fer hann með félögum sínum út til Króatíu á morgun. Róbert Aron Hostert, Vignir Stefánsson og Stiven Tobar Valencia léku ekki með Val og fara heldur ekki til Króatíu. Japanski markvörðurinn Motoki Sakai fékk ekki leikheimild í tíma fyrir leikinn. Hún liggur hinsvegar fyrir nú í kvöld og fer hann með Val út í fyrramálið. Stórskyttan unga og efnilega, Tryggvi Garðar Jónsson lék aðeins með að þessu sinni. Hans fyrsti leikur í meistaraflokki í tvö ár vegna meiðsla.


Sem fyrr segir voru leikmenn Hauka þungir enda nýlega komnir úr tveimur æfingamótum. Því seinni lauk á laugardaginn. Sást það vel á leik liðsins. Nákvæmni og ferskleika vantaði að mestu í sóknarleikinn. Leikmenn misstu dampinn í síðari hálfleik. Ólafur Ægir Ólafsson kenndi sér eymsla í upphitun og tók ekki þátt í leiknum. Geir Guðmundsson fékk byltu snemma leiks sem komið niður á frammistöðu hans það sem eftir var viðureignarinnar. Heimir Óli Heimisson er einnig meiddur og kom lítið við sögu. Halldór Ingi Jónasson er að koma til baka eftir meiðsli.


Varnarleikur Hauka var á tíðum góður og markvarslan til fyrirmyndar lengst af hjá þeim Aroni Rafni Eðvarðssyni og Stefáni Huldari Stefánssyni.


Mörk Vals: Tumi Steinn Rúnarsson 6, Þorgils Jón Svölu Baldursson 5, Magnús Óli Magnússon 4, Benedikt Gunnar Óskarsson 4, Finnur Ingi Stefánsson 4, Agnar Smári Jónsson 3, Einar Þorstein Ólafsson 1, Arnór Snær Óskarsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 15.
Mörk Hauka: Þráinn Orri Jónsson 5, Geir Guðmundsson 4, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 4, Darri Aronsson 3, Þorfinnur Máni Björnsson 2, Tjörvi Þorgeirsson 2, Atli Már Báruson 1, Halldór Ingi Jónasson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 8, Stefán Huldar Stefánsson 6.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -