Þegar Valur mætir franska liðinu PAUC Pays d´Aix í kvöld í Suður-Frakklandi, fyrir norðan Marseille, í Evrópudeildinni í handknattleik, fara þeir í kjölfar leikmanna Fram, FH, Hauka og ÍBV; að leika Evrópuleik í Frakklandi. Framarar léku fyrst gegn frönsku liði í Evrópukeppninni, er þeir mættu Parísarliðinu US Ivry 1970 í Evrópukeppni meistaraliða. Framarar unnu fyrri leikinn í Laugardalshöllinni 16:15, en töpuðu í París 16:24.
FH mætti US Ivry árið eftir, 1971, og vann báða leikina, 18:12 í Reykjavík og 15:14 í París og er FH eina liðið sem hefur fagnað sigri í Evrópuleik í Frakklandi, en níu leikir hafa tapast. Haukar hafa leikið 5 Evrópuleiki í Frakklandi.
Íslensk lið í Evrópuleikjum í Frakklandi: 1970: US Ivry - Fram 24:16. 1971: US Ivry - FH 14:15. 1996: Créteil París - Haukar 24:18. 2001: París St. Germain - Fram 24:23. 2003: Créteil París - Haukar 30:28. 2004: Créteil París - Haukar 31:24. 2006: París St. Germain - Haukar 34:24. 2011: Saint Raphaël - FH 35:26. 2015: Saint Raphaël - Haukar 30:18. 2018: PAUC Pays d´Aix - ÍBV 36:25.
548 Evrópuleikir
Fram tók fyrst íslenskra liða þátt í Evrópukeppninni er þeir mættu Skovbakken í Árósum í Danmörku 1962, eða fyrir 60 árum og máttu þola tap í framlengdum leik, 27:28. Leikmenn Fram voru heiðraðir fyrir leik Fram og ÍBV í sl. viku.
Síðan Fram lék í Árósum hafa 17 íslensk karlalið leikið 548 Evrópuleiki.
* Valur hefur tekið þátt í Evrópukeppninni á 25 keppnistímabilum og fóru fram úr FH, sem leikið hefur í Evrópukeppninni á 24 keppnistímabilum.
* Valur hefur leikið 104 leiki, unnið 47, gert 10 sinnum jafntefli og tapað 47 leikjum. Valsmenn hafa skorað 2.506 mörk í þessum leikjum og skoraði Benedikt Gunnar Óskarsson þeirra 2.500 mark í leik gegn Flensburg að Hlíðarenda á dögunum, 32:37.
* Haukar hafa leikið flesta Evrópuleiki, 116 og unnið 52 leiki á 20 keppnistímabilum.
Söguleg leikskrá og plakat
Framarar eiga ýmisleg gögn frá leiknum í Árósum, sem Sveinn H. Ragnarsson lisstjóri, hélt til haga.
Eins og auglýsingaplaggat, sem er sögulegt. Ýmis gögn um leikinn er í ramma við hliðina á plakatinu,
eins og frásagnir um leikinn í dönskum blöðum, jólakort sem Fram fékk frá Skovbakken.
Erlingur Kristjánsson, leikmaður, kom færandi hendi á dögunum, er hann kom með leikskrá leiksins, sem er mikill dýrgripur vegna þess að allir leikmenn, þjálfarar og forráðamenn liðanna rituðu nöfn sín á hana. Leikskránni hefur nú verið komið fyrir í rammanum sem geymir auglýsingaplaggatið. Það var Sveinn sem lét Erling fá leikskránna í veislu eftir leikinn og bað Erling um að sjá um að allir rituðu nöfn sín á skránna, með því að láta hana ganga á milli manna við veisluborðin.