Valsmennn halda sínu striki í Olísdeild karla í handknattleik. Þeir létu KA-menn ekki standa í vegi sínum í viðureign liðanna í KA-heimilinu í 5. umferð Olísdeildarinnar í kvöld. Segja má að úrslitin hafi verið ráðin eftir 15 til 20 mínútur og aðeins formsatriði að ljúka leiknum sem lauk með níu marka mun, 35:26. Valsmenn hafa þar með 10 stig að loknum fimm leikjum í efsta sæti en KA er í neðri hlutanum með fjögur stig.
Segja má að Valur hafi hreinlega keyrt yfir KA-menn strax í upphafi. Varnarleikurinn var frábær og Björgvin Páll Gústavsson fór á kostum í markinu. Í framhaldinu buldi hvert hraðaupphlaupið á fætur öðru á marki KA-liðsins.
KA skoraði aðeins fjögur mörk á fyrstu 20 mínútum leiksins. Munurinn varð mestur 11 mörk, 15:4. Valur lék sér að KA eins og köttur að mús. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 16:8.
Eftir fyrri hálfleikinn þá gaf Valur ekkert eftir fyrsta stundarfjórðunginn í síðari hálfleik og hélt tíu til ellefu marka forskoti.
Sem fyrr segir var varnarleikur Vals frábær með Einar Þorstein Ólafsson fermstan meðal jafningja. Þegar þessi hamur rennur á Valsliðið þá á ekki nokkur andstæðingur möguleika og vandséð hvaða lið ná að stöðva Hlíðarendaliðið um þessar mundir.
Mörk KA: Óðinn Þór Ríkharðsson 8/4, Einar Rafn Eiðsson 5, Arnór Ísak Haddsson 4, Jóhann Geir Sævarsson 2, Skarphéðinn Ívar Einarsson 2, Einar Birgir Stefánsson 1, Jón Heiðar Sigurðsson 1, Ólafur Gústafsson 1, Haraldur Bolli Heimisson 1.
Varin skot: Bruno Benat 5, 21,7% – Nicholas Satchwell 4, 22,2%.
Mörk Vals: Arnór Snær Óskarsson 7, Tumi Steinn Rúnarsson 6/3, Vignir Stefánsson 5, Benedikt Gunnar Óskarsson4, Agnar Smári Jónsson 3, Einar Þorsteinn Ólafsson 3, Þorgils Jón Svölu Baldursson 3, Tjörvi Týr Gíslason 2, Tryggvi Garðar Jónsson 1, Þorgeir Bjarki Davíðsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 12, 52,2% – Sakai Motoki 2, 11,8%.
Úrslit annarra leikja í Olísdeildinni í kvöld:
Grótta – Haukar 25:32.
Víkingur – Fram 25:27
Staðan í Olísdeild karla.
Handbolti.is var í KA-heimilinu og fylgdist með framvindu leiks KA og Fram í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.