- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valur aðeins stigi á eftir FH – annað tap Fram í röð

Agnar Smári Jónsson var markahæstur Valsmanna gegn Fram í dag. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Valur minnkaði forskot FH í efsta sæti Olísdeildar karla í handknattleik í eitt stig í kvöld með afar öruggum sigri á Fram, 36:28, í upphafsleik 15. umferðar sem fram fór í Úlfarsárdal, heimavelli Fram. FH á inni leik gegn Selfossi á fimmtudagskvöldið.

Valur var með yfirhöndina í leiknum frá upphafi til enda. Þriggja marka munur var, 17:14, þegar fyrri hálfleikur var að baki.

Þrátt fyrir tvo tapleiki í röð heldur Fram stöðu sinni í fimmta sæti með 17 stig, þremur stigum á undan Haukum sem eiga leik til góða.

Framarar náðu að jafna metin, 5:5, eftir nærri 10 mínútur á heimavelli eftir að hafa skorað eitt af fyrstu fimm mörkum leiksins. Valsmenn tóku völdin í leiknum eftir þetta. Þeir léku afar góða vörn auk þess sem Björgvin Páll Gústavsson var vel á verði í markinu. Leikmenn Fram voru í basli á báðum endum vallarins, ekki síst í síðari hálfleik.

Valur réði lögum og lofum í síðari hálfleik og vann eins og áður segir afar öruggan sigur. Agnar Smári Jónsson var öflugur í sóknarleiknum í fjarveru Ísaks Gústafssonar sem fékk högg á hnéið í síðustu viku gegn Selfossi.

Reynir Þór Stefánsson var besti leikmaður Fram að þessu sinni, líkt og gegn Aftureldingu á síðasta fimmtudag.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

Mörk Fram: Reynir Þór Stefánsson 7, Eiður Rafn Valsson 5, Marel Baldvinsson 3, Dagur Fannar Möller 3, Bjartur Már Guðmundsson 2, Rúnar Kárason 2, Tryggvi Garðar Jónsson 2, Ívar Logi Styrmisson 1, Stefán Orri Arnalds 1, Jóhann Karl Reynisson 1, Theodór Sigurðsson 1.
Varin skot: Lárus Helgi Ólafsson 9, Breki Hrafn Árnason 2.

Mörk Vals: Agnar Smári Jónsson 7, Andri Finnsson 6, Benedikt Gunnar Óskarsson 6, Magnús Óli Magnússon 6, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 5, Alexander Peterson 3, Bergur Elí Rúnarsson 2, Aron Dagur Pálsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 14.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -