Valur er kominn í átta liða úrslit Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik eftir sigur á spænska liðinu Málaga Costa del Sol í síðari viðureign liðanna í N1-höllinni á Hlíðarenda í kvöld, 31:26. Jafntefli var í fyrri viðureign liðanna á Spáni fyrir viku, 25:25.
Þar með hafa tvö íslensk félagslið tryggt sér sæti í átta liða úrslitum keppninnar að þessu sinni í fyrsta sinn í sögunni sem er stórt skref fyrir íslenskan kvennahandknattleik. Haukar öðluðust sæti í átta liða úrslitum á síðasta sunnudag eftir að hafa lagt HC Galychanka Lviv frá Úkraínu í tvígang á Ásvöllum.
Valur lék einstaklega vel í leiknum í dag, reyndar eins og um síðustu helgi. Liðið hafði yfirhöndina frá upphafi og var þremur mörkum yfir í hálfleik, 13:10.
Í síðari hálfleik héldu leikmenn Vals liðskonum Málaga Costa del Sol í skrúfstykki sem þeim síðarnefndu tókst aldrei að losa sig úr. Málaga Costa del Sol er í öðru sæti spænsku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir og eingöngu skipað atvinnukonum sem gerir sigur Vals ennþá áhugaverðari.
Ofan á annað átti Hafdís Renötudóttir stórleik í marki Vals, var með ríflega 40% hlutfallsmarkvörslu.
Valur komst í undanúrslit í keppninni fyrir 19 árum en féll úr leik fyrir rúmensku liði.
Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 7, Elísa Elíasdóttir 7, Elín Rósa Magnúsdóttir 6, Lovísa Thompson 4, Sigríður Hauksdóttir 3, Thea Imani Sturludóttir 2, Ásthildur Þórhallsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 17, 40%.