Valur vann Fram í meistarakeppni HSÍ í kvennaflokki í dag, 23:19. Leikið var í nýju og stórglæsilegu íþróttahúsi Fram í Úlfarsárdal en því miður fyrir félagið þá tókst liði þess ekki að vinna fyrsta bikarinn sem afhentur var í húsinu. Valur var með yfirhöndina frá upphafi til enda. Í hálfleik var Fram tveimur mörkum undir, 11:9.
Víst er að Stefán Arnarson þjálfari Fram gat ekki stillt upp sínu sterkasta liði í leiknum í dag. Arna Sif Pálsdóttir, Karen Knútsdóttir, Kristrún Steinþórsdóttir og Ragnheiður Júlíusdóttir voru allar fjarverandi og kom það niður á leik liðsins sem borinn var upp af horna- og línumönnum auk nokkurra táninga. Eftir því sem næst verður komist er liðsstyrkur frá útlöndum á leiðinni til Framara auk þess sem það styttist í Karen og Kristrúnu.
Valsliðið var einnig án sterkra leikmanna eins og systranna Ásdísar Þóru og Lilju Ágústsdætra og Söru Daggar Hjaltadóttur. Með þær innanborðs er ljóst að ekki er út í loftið skotið að Valur verður með afar sterkt lið á keppnistímabilinu þegar leikmenn verða búnir að slípa sig betur sama en talsvert var um einföld mistök á báða bóga.
Mörk Fram: Steinunn Björnsdóttir 6, Perla Ruth Albertsdóttir 5, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Daðey Ásta Hálfdánsdóttir 2, Erna Guðlaug Gunnarsdóttir 1, Hekla Rún Ámundadóttir 1, Dagmar Guðrún Pálsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 6, Soffía Steingrímsdóttir 3.
Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 7, Mariam Eradze 5, Margan Marie Þorkelsdóttir 3, Thea Imani Sturludóttir 3, Elín Rósa Magnúsdóttir 2, Sigríður Hauksdóttir 1, Hildur Björnsdóttir 1, Auður Ester Gestsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 11, Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 2.
Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.
Handbolti.is er í Úlfarsárdal og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.