Íslandsmeistarar Vals í handknattleik kvenna komust í dag í síðari umferð forkeppni Evrópudeildar kvenna í handknattleik með öðrum sigri sínum á hollensku meisturunum JuRo Unirek VZV, 30:26, í N1-höllinni á Hlíðarenda. Valur vann einvígið samanlagt, 61:56.
Í síðari umferð forkeppninnar, sem fram fer 8., 9., 15. og 16. nóvember bíður Vals að mæta þýska liðinu Blomberg-Lippe. Sigurlið þess einvígis kemst í riðlakeppni Evrópudeildar sem hefst í janúar.

Blomberg-Lippe hefur hefur innan sinna raða tvo fyrrverandi leikmenn Vals, Díönu Dögg Magnúsdóttur og Elínu Rósu Magnúsdóttur auk Andreu Jacobsen. Elín Rósa var ein kjölfesta Valsliðsins á síðustu árum og leikmaður Íslands- og Evrópubikarmeistaraliðs félagsins í vor.
Blomberg-Lippe er um þessar mundir í efsta sæti þýsku 1. deildarinnar og komst í vor í undanúrslit Evrópudeildarinnar.
Eins marks munur
Valur byrjaði leikinn við JuRo Unirek VZV af miklum krafti og var með sjö marka forskot um miðjan fyrri hálfleik, 12:5. Staðan í hálfleik var 17:11. Hollenska liðið náði miklu áhlaupi í upphafi síðari hálfleiks og minnkaði muninn í eitt mark, 21:20, þegar 17 mínútur voru til leiksloka. Valsliðinu tókst að hrinda áhlaupinu og endurheimta tveggja til fjögurra marka forskot sem hélst til leiksloka.
Mörk Vals: Thea Imani Sturludóttir 6, Auður Ester Gestsdóttir 5, Lilja Ágústsdóttir 4, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 3, Áshildur Þórhallsdóttir 3, Guðrún Hekla Traustadóttir 3, Lovísa Thompson 3, Arna Karítas Eiríksdóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1, Hildur Björnsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 15, 39,5%.