Handknattleiksdeild Vals og Andri Finnsson hafa gert samkomulag um að framlengja samning hans við félagið. Samningurinn gildir nú fram í júní 2029.
Andri, sem er 23 ára gamall, er uppalinn í félaginu og er einn af lykilmönnum liðsins. Hann hefur skorað 54 mörk í Olísdeildinni á þessu tímabili og er um leið næstmarkahæsti leikmaður liðsins. Hann hefur einnig leikið með yngri landsliðum Íslands.
„Ég er mjög sáttur með að Andri hafi framlengt við félagið. Hann er góður leikmaður, fjölhæfur og getur leikið í horni jafnt sem á línunni. Að auki er hann frábær liðsfélagi og mjög metnaðargjarn. Ég hlakka til að halda áfram að vinna með honum,” er haft eftir Ágústi Þór Jóhannssyni þjálfara Vals í tilkynningu félagsins.




