Valur tryggði sér sæti í undanúrslitum Coca Cola-bikars kvenna í handknattleik í kvöld þegar liðið lagði Hauka með tveggja marka mun, 26:24, í Origohöllinni. Valur var með fjögurra marka forskot að loknum fyrir hálfleik, 14:10. Valskonur bætast þar með í hóp með Íslands- og bikarmeisturum KA/Þórs og Fram sem unnu sér inn sæti í undanúrslitum um síðustu helgi.
Leikið verður til undanúrslita í Coca Cola-bikar kvenna miðvikudaginn 9. mars á Ásvöllum í Hafnarfirði.
Á sama tíma vann Stjarnan sér sæti í átta lið úrslitum sömu keppni. Stjarnan vann FH með 10 marka mun, 28:18, í Kaplakrika í leik í 16-liða úrslitum sem tókst loksins að koma á dagskrá eftir að honum var frestað í tvígang. Stjarnan leikur við ÍBV í átta liða úrslitum í Vestmannaeyjum á fimmtudagskvöldið þar sem síðasta sæti í undanúrslitum verður í boði fyrir sigurliðið.
Skýr getumunur
Eins og við mátti búast þá hafði Stjarnan nokkra yfirburði gegn FH sem leikur í Grill66-deildinni. Leiðir liðanna skildu fljótlega og því miður var aðeins spurning um hversu stór sigurinn yrði. Stjarnan var að þessu sinni alltof stór biti fyrir baráttuglaða leikmenn FH. Staðan að loknum fyrri hálfleik var 15:8, Stjörnukonum í hag.
Góð byrjun og ágætur lokasprettur nægði ekki
Haukar byrjuðu afar vel í Origohöllinni gegn Val og voru með tveggja til þriggja marka forystu framan af. Upp úr fyrri hálfleik tókst Val að jafna metin, 8:8. Lovísa Thompson kom Val yfir í fyrsta sinn, 9:8, þegar tæpar 20 mínútur voru liðnar af leiktímanum. Eftir það komst Haukaliðið aldrei yfir í leiknum.
Sara Odden skoraði beint úr aukakasti eftir að leiktíminn var liðinn í fyrri hálfleik og minnkaði forskot Vals niður í fjögur mörk, 14:10.
Haukum tókst ekki að ná sér á flug fyrr en undir lok síðari hálfleiks. Þeir lentu sex mörk undir 23:17, þegar sjö mínútur voru eftir. Þá tókst Hafnarfjarðarliðinu að skora fjögur mörk í röð og minnka muninn í tvö mörk, 23:21. Það var bara orðið nokkuð seint. Valskonum tókst að halda sjó til leiksloka og vinna með tveggja marka mun.
Valur – Haukar 26:24 (14:10).
Mörk Vals: Morgan Marie Þorkelsdóttir 7, Lovísa Thompson 6, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Thea Imani Sturludóttir 3, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 3, Auður Ester Gestsdóttir 2, Hildigunnur Einarsdóttir 1, Hulda Dís Þrastardóttir 1.
Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttir 8, Sara Marie Odden 6, Ásta Björt Júlíusdóttir 5, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 2, Berglind Benediktsdóttir 1, Rakel Sigurðardóttir 1, Ragnheiður Ragnarsdóttir 1.
FH – Stjarnan 18:28 (8:15).
Mörk FH: Hildur Guðjónsdóttir 9, Karen Hrund Logadóttir 4, Fanney Þóra Þórsdóttir 3, Ragnhildur Edda Þórðardóttir 2.
Mörk Stjörnunnar: Elísabet Gunnarsdóttir 7, Katla María Magnúsdóttir 4, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 3, Adda Sólbjört Högnadóttir 3, Anna Karen Hansdóttir 2, Helena Rut Örvarsdóttir 2, Eva Björk Davíðsdóttir 2, Elena Elísabet Birgisdóttir 2, Lena Margrét Valdimarsdóttir 2, Thelma Sif Sófusdóttir 1.