Evrópubikarmeistarar Vals í handknattleik karla er lið ársins 2024 hér á landi. Valsliðið varð í efsta sæti í kjöri á vegum Samtaka íþróttafréttamanna, SÍ. Greint var frá niðurstöðunni í sameiginlegu hófi SÍ og Íþrótta- og Óympíusambands Íslands í Silfurbergi í Hörpu. Þetta er í annað sinn síðan lið ársins var fyrst kjörið 2012 sem handboltalið hreppir hnossið. Í fyrra skiptið, 2022, varð karlalið Vals einnig fyrir valinu.
Níu lið hlutu stig í kjörinu að þessu sinni en 24 íþróttafréttamenn tóku þátt í kjörinu:
1. Valur handbolti karla 67 stig.
2. Ísland hópfimleikar kvenna 53 stig.
3. Ísland fótbolti kvenna 41 stig.
4. Valur handbolti kvenna 30 stig.
5. Víkingur fótbolti karla 14 stig.
6. Ísland körfubolti karla 6 stig.
7. FH handbolti karla 3 stig.
8.-9. Breiðablik fótbolti karla 1 stig.
8.-9. Ísland handbolti kvenna 1 stig.
(Starfsmaður handbolti.is er félagi í Samtökum íþróttafréttamanna sem stendur fyrir valinu).