Íslandsmeistarar Vals í handknattleik kvenna brutu í kvöld blað í sögu kvennahandknattleiks hér á landi þegar liðið tryggði sér sæti í úrslitum Evrópubikarkeppninnar fyrst íslenskra kvennaliða. Valur vann MSK IUVENTA Michalovce í síðari viðureign liðanna í N1-höllinni á Hlíðarenda með 10 marka mun, 30:20, og samanlagt, 53:45, í tveimur viðureignum.
Andstæðingur Valsliðsins í úrslitaleikjunum verður spænska liðið Conservas Orbe Zendal Bm Porrino. Úrslitaleikirnir verða 10. eða 11. maí og 17. eða 18. maí. Dregið verður á þriðjudaginn hvort liðið byrjar á heimavelli.
Valsliðið tók leikinn föstum tökum frá upphafi. Varnarleikurinn var afar góður og Hafdís Renötudóttir fór á kostum í markinu. Eftir 15 mínútur var forskotið, 9:5.Hafdís varði alls 11 skot í fyrri hálfleik. Áfram herti Valsiðið tökin og náði sex marka forskoti, 14:8. Leikmenn MSK IUVENTA Michalovce skoruðu þrjú mörk í röð áður en leikmenn Vals skoruðu þrjú síðustu mörk hálfleiksins. Staðan var 17:10 að loknum fyrri hálfleik og sannarlega byr í seglum Valsliðsins sem var vel stutt af um 1.000 áhorfendum.
Valur byrjaði síðari hálfleik frábærlega og var kominn með 10 marka forskot eftir 10 mínútur, 22:12. Skömmu áður hafði einn leikmanna MSK IUVENTA Michalovce fengið rautt spjald í viðbót við þann sem fékk rautt spjald í fyrri hálfleik. Hafdís var áfram stórkostleg í markinu.
Úrslitin voru löngu ráðin. Gestirnir vissu ekki sitt rjúkandi ráð hvorki í vörn né sókn. Valsliðið lék eins sá sem valdið hefur og vann stórsigur og vann sér verðskuldað sæti í úrslitum Evrópudeildarinnar. Stórkostleg frammistaða hjá Valsliðinu í leiknum og árangurinn eftir því.
Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 8, Thea Imani Sturludóttir 7, Lovísa Thompson 4, Lilja Ágústsdóttir 3, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Elísa Elíasdóttir 2, Sigríður Hauksdóttir 1, Hildur Björnsdóttir 1, Hildigunnur Einarsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 19, 50% – Silja Arngrímsdóttir Müller 2, 66,6%.
Sjá einnig:
Hreint magnað að standa í þessum sporum
Líður ógeðslega vel – þetta var rosalega gaman
Var svo fjarlægur draumur fyrir nokkrum árum
Handbolti.is var á Hlíðarenda og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.