Valur náði að kreista fram sigur gegn Haukum í kvöld í upphafsleik 15. umferðar Olísdeildar kvenna í Origohöllinni, 27:26, og halda þar með efsta sæti deildarinnar. Haukar voru hinsvegar sterkari í leiknum lengst af en fengu ekkert út úr leiknum þegar frá var horfið. Skal engan undra þótt leikmenn hafi verið vonsviknir.
Haukar voru marki yfir, 11:10, í hálfleik eftir að hafa náð fjögurra marka forskoti, m.a. 10:6.
Valur komst fyrst yfir í leiknum, 22:21, þegar 11 mínútur voru eftir. Haukar náðu aðeins að jafna leikinn eftir það. Munaði talsverðu fyrir Val að Sara Sif Helgadóttir datt í stuð í markinu auk þess sem tókst að koma böndum yfir Elínu Klöru Þorkelsdóttur í sóknarleik Hauka. Hún átti enn einn stórleikinn, skoraði níu mörk og skapaði átta marktækifæri.
Valur náði þriggja marka forskoti, 27:24, þegar skammt var til leiksloka. Mest fyrir tilstuðlan Söru Sifjar markvarðar og Söru Daggar í sókninni sem skoraði tvö afar mikilvæg mörk á lokakaflanum.
Mörk Vals: Lilja Ágústsdóttir 7/4, Thea Imani Sturludóttir 6, Mariam Eradze 3, Sara Dögg Hjaltadóttir 3, Sigríður Hauksdóttir 2, Elín Rósa Magnúsdóttir 2, Hildur Björnsdóttir 2, Auður Ester Gestsdóttir 1, Hildigunnur Einarsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 9/1, Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 1.
Mörk Hauka: Elín Klara Þorkelsdóttir 9, Ragnheiður Ragnarsdóttir 4, Gunnhildur Pétursdóttir 4, Ena Car 4, Ragnheiður Sveinsdóttir 3, Sara Odden 2.
Varin skot: Margrét Einarsdóttir 5/1, 18,5% – Heiðbjört Anna Guðmundsdóttir 1/1, 16,7%.
Staðan í Olísdeild kvenna.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.