-Auglýsing-

Valur slapp með skrekkinn – Þórsarar áttu þrjár sóknir til að jafna metin

- Auglýsing -

Valsmenn sluppu með svo sannarlega með skrekkinn gegn Þórsurum í viðureign liðanna í Höllinni á Akureyri í 3. umferð Olísdeildar karla. Þór fékk þrjár sóknir á síðustu 90 sekúndunum til þess að jafna metin en féll allur ketill jafn óðum í eld. Valur vann með eins marks mun, 28:27, eftir jafna stöðu í hálfleik, 11:11.


Í upphafi síðari hálfleik leit út fyrir að Valsmenn myndu fylgja í fótspor Framara er þeir mættu Þór um síðustu helgi, þ.e. stinga af. Valur skoraði 10 mörk á fyrstu 10 mínútum síðari hálfleiks og náði fimm marka forskoti. Svo fór ekki. Þórsarar hertu upp hugann, ekki síst í vörninni auk þess sem Nikola Radovanovic var frábær í markinu.

Þegar rúmar 10 mínútur voru til leiksloka tók Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals leikhlé og reyndi að blása leikmönnum sínum baráttuanda í brjóst. Valsmenn náðu þriggja marka forskoti eftir hléið, 28:25, sem engu mátti muna að Þórsarar næðu að vinna upp á lokakaflanum.

Bæði lið þurftu lengst af að hafa talsvert fyrir mörkum sínum. Varnarleikurinn var í öndvegi.

Ljóst er að Þórsarar eru til alls líklegir á leiktíðinni með sama framhaldi, ekki síst á heimavelli.

Frábær stemning var í Höllinni á Akureyri í kvöld. Strákarnir í fótboltaliði Þórs stjórnuðu stemningunni. Hér hluti þeirra. Ljósmynd/Skapti Hallgrímsson, Akureyri.net

Frábær stemning

Frábær stemning var Höllinni. Strákarnir í fótboltaliði Þórs stjórnuðu stemningunni – stórskemmtilegir! “Velkomnir í Þorpið” og það allt, sem sungið hefur verið hjá þeim á leikjum í sumar. Kunnu leikmenn vel að meta þetta.


Mörk Þórs: Igor Chiseliov 7/1, Brynjar Hólm Grétarsson 5, Hafþór Már Vignisson 5, Oddur Gretarsson 4, Þórður Tandri Ágústsson 3, Arnór Þorri Þorsteinsson 2, Halldór Kristinn Harðarson 1.
Varin skot: Nikola Radovanovic 15/2, 39,5% – Patrekur Guðni Þorbergsson 3, 37,5%.

Mörk Vals: Andri Finnsson 5, Þorgils Jón Svölu Baldursson 4, Dagur Árni Heimisson 4/2, Kristófer Máni Jónasson 4, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 3, Allan Norðberg 3, Gunnar Róbertsson 3, Viktor Sigurðsson 2/1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 12/2, 30,8%.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -