- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valur sótti tvö stig til Fram í Lambhagahöllina

Þórey Anna Ásgeirsdóttir leikmaður Vals. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Íslandsmeistarar Vals undirstrikuðu í kvöld að liðið er það besta í kvennahandknattleik hér á landi um þessar mundir með því að vinna Fram á sannfærandi hátt, 29:25, í fjórðu umferð Olísdeildarinnar í Lambhagahöllinni. Valur hefur þar með unnið fjóra fyrstu leiki sína í deildinni og eiga viðureign við Hauka í næstu viku að loknum tveimur Evrópuleikjum í Litáen um næstu helgi.

Framarar höfðu í fullu tré við Val á upphafskafla leiksins. Eftir það tók Valsliðið völdin í leiknum með góðum varnarleik og traustri markvörslu Hafdísar Renötudóttur auk agaðs sóknarleiks.

Sex mínútum fyrir lok hálfleiksins tókst Fram að minnka muninn í tvö mörk, 12:10, áður en Valur bætti í forskotið fyrir hálfleik þegar leikar stóðu, 15:11. Thea Imani Sturludóttir skoraði 15. mark Vals á síðustu sekúndum af talsverðu harðfylgi.

Aldrei var spenna í leiknum í síðari hálfleik. Valsliðið var með frá fimm og upp í átta marka forskot. Undir lokin slakaði liðið aðeins á klónni en það skipti ekki neinu upp á hvort liðið fékk stigin tvö.

Karen með á ný

Karen Knútsdóttir lék með Fram í kvöld eftir tveggja ára hlé en hún hóf síðsumars æfingar á ný með samherjum sínum. Ljóst var að Karen hefur engu gleymt þótt hún hafi ekki getað komið í veg fyrir tap Framliðsins að þessu sinni.

Mörk Fram: Þórey Rósa Stefánsdóttir 5, Karen Knútsdóttir 5, Alfa Brá Hagalín 5, Steinunn Björnsdóttir 4, Kristrún Steinþórsdóttir 2, Íris Anna Gísladóttir 2, Sóldís Rós Ragnarsdóttir 1, Lena Margrét Valdimarsdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 6/1, 33,3% – Andrea Gunnlaugsdóttir 2, 22,2%.

Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 6/3, Elín Rósa Magnúsdóttir 5, Thea Imani Sturludóttir 4, Sigríður Hauksdóttir 4, Elísa Elíasdóttir 4, Hildigunnur Einarsdóttir 3, Lovísa Thompson 2, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 13, 34,2%.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

Tölfræði HBStatz.

Olísdeildir – frétttir og frásagnir.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -