- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valur stendur vel að vígi eftir sjö marka sigur

Thea Imani Sturludóttir skoraði sjö mörk fyrir Val. Mynd/[email protected]
- Auglýsing -


Íslandsmeistarar Vals hafa vænlegt forskot, 28:21, eftir sigur á Slavia Prag í fyrri viðureign liðanna í átta liða úrslitum Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik í N1-höllinni á Hlíðarenda í dag. Kálið er ekki sopið hjá Valsliðinu vegna þess að síðari viðureignin er eftir og hún verður á sama stað klukkan 16 á morgun. Samanlagður árangur beggja leikja skilar öðru hvoru liðinu sæti í undanúrslitum Evrópubikarkeppninnar.


Valur var með fimm marka forskot í hálfleik í dag, 17:12. Afar góður varnarleikur og markvarsla skilaði liðinu strax yfirhöndinni og frumkvæði í leiknum. Leikmönnum tékkneska liðsins tókst aldrei að ógna Valsliðinu sem lék einstaklega vel á löngum köflum í fyrri hálfleik.

Framan af síðari hálfleik virtust leikmenn Slavía ætla að bíta frá sér eftir góða ræðu þjálfarans í hálfleik. Forskot Vals var komið niður í fjögur mörk áður en aftur lifnaði yfir sóknarleik Vals sem var brothættur í upphafi. Varnarleikur og góð markvarsla færði Valsliðinu góð mörk eftir hraðaupphlaup.

Valur var nær því að ná átta marka forskoti undir lok leiksins og fékk tvær sóknir til þess að ekki gekk rófan.

Þótt aðsóknin hafi verið þokkalega á leikinn í dag er svo sannarlega pláss fyrir mikið fleiri í N1-höllinni og rétt að hvetja handknattleiksunnendur að leggja leið sína á Hlíðarenda á fjórða tímanum á morgun og styðja Val í keppninni um að komast í undanúrslit Evrópubikarkeppninnar. Ýmislegt getur gerst í Evrópuleikjum eins og dæmin sanna auk þess sem góður stuðningur gerir ævinlega gott betra.


Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 8, Thea Imani Sturludóttir 7, Elín Rósa Magnúsdóttir 4, Hildigunnur Einarsdóttir 3, Sigríður Hauksdóttir 2, Lovísa Thompson 2, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 13, 38,2%.
Mörk Slavía: Simona Schreibmeierová 5, Veronika Holecková 4, Angela Jankukovska 4, Jana Knedlikova 4, Tereza Vostárková 2, Barbara Vavroušková 1.
Varin skot: Michaela Malá 12, 30%.

Hættuleg staða að vera í

Hraði og kraftur í okkur í leiknum

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -