
„Markvarslan, hraðaupphlaupin hjá Val og línuspil Haukanna verða væntanlega þau atriði sem skipta hvað mestu máli um hvort liðið fer með sigur úr býtum í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn,“ segir hinn þrautreyndi handknattleiksþjálfari Einar Andri Einarsson þegar handbolti.is leitaði eftir skoðunum hans á úrslitarimmu Hauka og Vals um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla. Fyrri viðureign liðanna fer fram í kvöld í Origohöll Valsara og hefst klukkan 19.30.
„Þessi atriði geta skipt sköpum þegar á hólminn verður komið,“ sagði Einar Andri sem hefur farið ítarlega yfir viðureignir Hauka og Vals á keppnistímabilinu til þess að vera sem best búinn undir þátttöku sína í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport í kvöld.
Markvarslan skiptir miklu máli
„Björgvin Páll [Gústavsson markvörður Hauka] getur ráðið úrslitum í þessu einvígi. Markvarslan hefur verið jafnari hjá Haukum en hjá Val þótt Martin Nágý, markvörður Vals, hafi sótt í sig veðrið upp á síðkastið,“ segir Einar Andri.
„Í fyrri leikjum liðanna á tímabilinu þá hefur Valsliðinu tekist vel til þegar það hefur náð að keyra hratt í bakið á Haukum. Væntanlega verður áfram lögð þung áhersla á það atriði.
Línuspil Hauka hefur verið mjög sterkt vopn sem Valsmenn hafa verið í vandræðum með að verjast. Stjarnan lék vörnina mjög aftarlega í síðari leiknum við Hauka, nokkuð sem Haukaliðið átti í erfiðleikum með að leysa úr. Þar með lokaðist fyrir línuspilið. Valsarar reyndu það þegar liðin mættust í síðari leiknum í deildinni í mars. Hinsvegar líður Valsmönnum best í vörninni þegar þeir leika framar og eru svolítið agressívir,“ segir Einar Andri.
Stefán Rafn leikur stórt hlutverk
„Stóra spurningsmerkið í þessu leikjum er líka Stefán Rafn Sigurmannsson. Verður hann með eða ekki? Koma Stefáns Rafns til Hauka hefur breytt mjög miklu. Hann hefur leikið bakvörð í vörn sem hefur orðið til þess að hægt hefur verið að nýta Adam Hauk [Baumruk] í miðri vörninni. Orri Freyr [Þorkelsson] getur vel leyst Stefán Rafn af í sókninni en hvað varðar varnarleikinn er annað mál,“ segir Einar Andri og bendir réttilega á að tap Hauka fyrir Stjörnunni hafi verið það fyrsta síðan Stefán Rafn byrjaði að leika með liðinu 16. mars.
Þurfa að minnsta kosti þrjú mörk
„Valur verður að vinna leikinn í kvöld með að minnsta kosti þriggja marka mun, helst meira, til þess að eiga möguleika á að vinna titilinn. Vissulega sýndi Stjarnan að ýmislegt er mögulegt. En tilfinningin segir mér að Valur verði að fara með nokkra marka forskot inn í síðari leikinn sem fram fer á föstudaginn. Það er langsótt að Haukar tapi tveimur heimaleikjum í röð,“ sagði Einar Andri Einarsson, handknattleiksþjálfari í samtali við handbolta.is í morgun.
- Evrópudeild karla ’23 – úrslit 5. umferðar
- Myndasyrpa: Góð stemning á fyrstu æfingunni
- Mættar til Stafangurs – tveir sólarhringar í fyrsta leik á HM
- HM kvenna ´23 – leikjadagskrá, riðlakeppni
- Viggó er skammt á eftir þeim markahæstu