- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valur þarf að fara með forskot inn í síðari leikinn

Þetta er bikar en þó ekki Bikarinn. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -
Einar Andri Einarsson, þjálfari U21 árs landsliðsins og hjá FH.

„Markvarslan, hraðaupphlaupin hjá Val og línuspil Haukanna verða væntanlega þau atriði sem skipta hvað mestu máli um hvort liðið fer með sigur úr býtum í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn,“ segir hinn þrautreyndi handknattleiksþjálfari Einar Andri Einarsson þegar handbolti.is leitaði eftir skoðunum hans á úrslitarimmu Hauka og Vals um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla. Fyrri viðureign liðanna fer fram í kvöld í Origohöll Valsara og hefst klukkan 19.30.


„Þessi atriði geta skipt sköpum þegar á hólminn verður komið,“ sagði Einar Andri sem hefur farið ítarlega yfir viðureignir Hauka og Vals á keppnistímabilinu til þess að vera sem best búinn undir þátttöku sína í Seinni bylgjunni á Stöð 2 Sport í kvöld.

Markvarslan skiptir miklu máli

„Björgvin Páll [Gústavsson markvörður Hauka] getur ráðið úrslitum í þessu einvígi. Markvarslan hefur verið jafnari hjá Haukum en hjá Val þótt Martin Nágý, markvörður Vals, hafi sótt í sig veðrið upp á síðkastið,“ segir Einar Andri.


„Í fyrri leikjum liðanna á tímabilinu þá hefur Valsliðinu tekist vel til þegar það hefur náð að keyra hratt í bakið á Haukum. Væntanlega verður áfram lögð þung áhersla á það atriði.


Línuspil Hauka hefur verið mjög sterkt vopn sem Valsmenn hafa verið í vandræðum með að verjast. Stjarnan lék vörnina mjög aftarlega í síðari leiknum við Hauka, nokkuð sem Haukaliðið átti í erfiðleikum með að leysa úr. Þar með lokaðist fyrir línuspilið. Valsarar reyndu það þegar liðin mættust í síðari leiknum í deildinni í mars. Hinsvegar líður Valsmönnum best í vörninni þegar þeir leika framar og eru svolítið agressívir,“ segir Einar Andri.

Stefán Rafn leikur stórt hlutverk

„Stóra spurningsmerkið í þessu leikjum er líka Stefán Rafn Sigurmannsson. Verður hann með eða ekki? Koma Stefáns Rafns til Hauka hefur breytt mjög miklu. Hann hefur leikið bakvörð í vörn sem hefur orðið til þess að hægt hefur verið að nýta Adam Hauk [Baumruk] í miðri vörninni. Orri Freyr [Þorkelsson] getur vel leyst Stefán Rafn af í sókninni en hvað varðar varnarleikinn er annað mál,“ segir Einar Andri og bendir réttilega á að tap Hauka fyrir Stjörnunni hafi verið það fyrsta síðan Stefán Rafn byrjaði að leika með liðinu 16. mars.

Þurfa að minnsta kosti þrjú mörk

„Valur verður að vinna leikinn í kvöld með að minnsta kosti þriggja marka mun, helst meira, til þess að eiga möguleika á að vinna titilinn. Vissulega sýndi Stjarnan að ýmislegt er mögulegt. En tilfinningin segir mér að Valur verði að fara með nokkra marka forskot inn í síðari leikinn sem fram fer á föstudaginn. Það er langsótt að Haukar tapi tveimur heimaleikjum í röð,“ sagði Einar Andri Einarsson, handknattleiksþjálfari í samtali við handbolta.is í morgun.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -