Valur vann afar sannfærandi sigur á Haukum á Ásvöllum í kvöld í upphafsleik 8. umferðar Olísdeildar kvenna, 31:24, eftir að hafa náð mest níu marka forskoti, 29:20, þegar sjö mínútur voru til leiksloka. Valur er áfram efstur með 14 stig en Haukar hafa sjö stig í fimmta sæti af átta liðum deildarinnar.
Valsliðið átti harma gegn Haukum eftir tap í fyrstu viðureign liðanna í haust.
Fyrri hálfleikur var jafn og spennandi. Valur var með eins marks forskot að honum loknum, 13:12. Haukar brenndu af þremur vítaköstum í hálfleiknum.
Í síðari hálfleik skildu leiðir liðanna fljótlega. Varnarleikur Hauka dapraðist og ráðaleysi var á köflum í sóknarleiknum. Valsliðið gekk á lagið með hraðaupphlaupum. Þegar 14 mínútur voru til leiksloka var Valur með sjö marka forskot, 25:18. Þjálfarar Hauka tóku þá sitt þriðja leikhlé. Skipt var yfir í 7/6. Sú breyting skilaði Haukaliðinu engum árangri.
Lovísa Thompson átti stórleik hjá Val með níu mörk í 12 skotum. Hafdís Renötudóttir varði 17 skot.
Inga Dís Jóhannsdóttir lék með Haukum á ný eftir að hafa handarbrotnað snemma í síðasta mánuði.
Leikurinn var gott veganesti fyrir Valsliðið fyrir Þýskalandsferð í fyrramálið. Valur mætir Blomberg-Lippe í annarri umferð forkeppni Evrópudeildarinnar ytra á laugardaginn.
Haukar eiga heimaleik í Evrópubikarkeppninni á laugardagskvöld gegn spænska liðinu Costa del Sol Málaga.
Mörk Hauka: Jóhanna Margrét Sigurðardóttir 7/1, Inga Dís Jóhannsdóttir 4, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 4, Embla Steindórsdóttir 2, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 2/1, Alexandra Líf Arnarsdóttir 2, Ebba Guðríður Ægisdóttir 1, Thelma Melsted Björgvinsdóttir 1, Aníta Eik Jónsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 6/1, 18,8% – Elísa Helga Sigurðardóttir 3, 37,5%.
Mörk Vals: Lovísa Thompson 9, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 6/4, Thea Imani Sturludóttir 6, Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 3, Elísa Elíasdóttir 2, Auður Ester Gestsdóttir 2, Arna Karitas Eiríksdóttir 1, Guðrún Hekla Traustadóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 17/2, 41,5%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.





