Ungmennalið Vals fór upp í annað sæti Grill 66-deildar karla í handknattleik í gærkvöld með fimm marka sigri á ungmennaliðið Selfoss, 35:30, í Origohöllinni á Hlíðarenda. Valsliðið hefur þar með 12 stig að loknum átta leikjum og er tveimur stigum á eftir Víkingum sem tróna á toppnum. HK og Fjölnir er næst á eftir Val með 10 stig, hvort lið, en þau eiga bæði inni leiki á Víking og ungmennalið Vals.
Selfoss er í sjöunda sæti með fimm stig að loknum átta leikjum. Einn leikur verður í Grill 66-deildinni í dag þegar Fjölnismenn fá Hörð frá Ísafirði í heimsókn í Dalhús klukkan 17.
Selfoss hóf leikinn betur en Valsliðið í Origohöllinni í gærkvöld og var með tveggja marka forskot, 7:5, eftir um tíu mínútna leik. Valsmenn sneru þá við taflinu og léku við hvern sinn fingur fram að hálfleik þegar forskot þeirra var átta mörk, 20:12. Í síðari hálfleik hélt markaveislan áfram en aldrei lék vafi á um hvort liðið færi með sigur úr býtum.
Benedikt Gunnar Óskarsson fór á kostum einu sinni sem oftar í liði Vals og skoraði 11 mörk. Einar Þorsteinn Ólafsson var einnig aðsópsmikill. Hannes Höskuldsson lét til sín taka ásamt fleiri leikmönnum Selfossliðsins.
Mörk Vals U.: Benedikt Gunnar Óskarsson 11, Einar Þorsteinn Ólafsson 7, Jóel Bernburg 5, Andri Finnsson 3, Breki Hrafn Valdimarsson 2, Þorgeir Arnarsson 2, Anton Pétur Davíðsson 1, Áki Hlynur Andrason 1, Gunnar Pétur Haraldsson 1, Tómas Sigurðarson 1, Róbert Nökkvi Petersen 1.
Mörk Selfoss U.: Hannes Höskuldsson 8, Ísak Gústafsson 6, Andri Dagur Ófeigsson 5, Arnór Logi Hákonarson 3, Guðjón Baldur Ómarsson 3, Gunnar Flosi Grétarsson 2, Haukur Páll Hallgrímsson 2, Hans Jörgen Ólafsson 1.