- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valur vann Aronslausa FH-inga – Afturelding kippti Fram niður á jörðina

Björgvn Páll Gústavsson markvörður Vals með alla anga úti til þess að verja frá Jóni Bjarna Ólafssyni línumanni FH. Ljósmynd/J.L.Long
- Auglýsing -


Valsmenn gerðu sér lítið fyrir og lögðu Íslandsmeistara FH með sjö marka mun, 30:23, í Olísdeild karla í handknattleik í Kaplakrika í kvöld. Afar góður varnarleikur lagði grunn að sigrinum auk þess sem það veikti sannarlega FH-liðið að hafa ekki Aron Pálmarsson með. Eftir því sem fram kemur í samtali við Sigurstein Arndal þjálfara FH á Vísir í kvöld þá meiddist Aron á æfingu í gær.

Valur var með eins marks forskot í hálfleik, 13:12, en tók völdin í síðari hálfleik gegn lánlausum leikmönnum FH. Auk góðs varnarleiks og vasklegrar framgöngu Björgvins Páls Gústavssonar í markinu þá átti Viktor Sigurðsson fínan leik í sókninni. Viktor skoraði sjö mörk í átta skotum og var með sex sköpuð færi.

Valsmenn hafa þar með unnið tvo leiki í röð í deildinni og hafa rétt talsvert úr kútnum eftir erfiða byrjun. Þeir eiga hinsvegar enn inni Róbert Aron Hostert sem er frá vegna meiðsla. Eins er Magnús Óli Magnússon jafnt og þétt að koma til baka.

Félagarnir Ólafur Gústafsson og Aron Pálmarsson fylgjast með leiknum í Kaplakrika í kvöld. Ljósmynd/J.L.Long

FH-ingar mega ekki við því að vera án Arons. Þar á ofan tók Leonharð Þorgeir Harðarson ekki þátt í leiknum vegna meiðsla. Eins er og hefur Ólafur Gústafsson ekkert verið með í leikjum FH í Olísdeildinni vegna meiðsla.

Einar Baldvin í stuði

Aftureldingarmenn léku við hvern sinn fingur gegn Fram í kvöld og unnu mjög öruggan sigur, 34:29. Kipptu þeir leikmönnum Fram niður á jörðina eftir frábæra frammistöðu gegn Haukum á síðasta föstudag. Ekki síst voru Mosfellingar frábærir í fyrri hálfleik. Sóknarleikurinn gekk eins og í sögu auk þess sem Einar Baldvin Baldvinsson varði allt hvað af tók í markinu. Staðan var 19:14, þegar fyrri hálfleikur var að baki.

Aftureldingarmenn héldu í horfinu í síðari hálfleik. Þeir hafa nú aflað sér sjö stiga í fimm leikjum og standa jafnir Haukum í þriðja til fjórða sæti. Haukar hafa leikið einum leik fleira.

Fram hafði unnið þrjá leiki í röð þegar þeir mættu að Varmá í kvöld og eru stigi á eftir Aftureldingu og Haukum. Grótta og FH sitja í tveimur efstu sætunum.

Staðan í Olísdeildum og næstu leikir.

FH – Valur 23:30 (12:13).
Mörk FH: Garðar Ingi Sindrason 5, Ásbjörn Friðriksson 5/1, Jón Bjarni Ólafsson 4, Birgir Már Birgisson 4, Jóhannes Berg Andrason 3, Einar Örn Sindrason 1, Símon Michael Guðjónsson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 12/1, 28,6%.
Mörk Vals: Viktor Sigurðsson 7, Magnús Óli Magnússon 5, Ísak Gústafsson 5, Bjarni í Selvindi 4, Úlfar Páll Monsi Þórðarson 2, Andri Finnsson 2, Miodrag Corsovic 1, Kristófer Máni Jónasson 1, Agnar Smári Jónsson 1, Allan Norðberg 1, Alexander Peterson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 13/2, 36,1%.

Valsmaðurinn Bjarni í Selvindi sækir að vörn FH. Daníel Freyr Andrésson markvörður reiðbúinn að verja. Ljósmynd/J.L.Long

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Afturelding – Fram 34:29 (19:14).
Mörk Aftureldingar: Blær Hinriksson 8, Birgir Steinn Jónsson 8/4, Hallur Arason 5, Ihor Kopyshynskyi 4, Árni Bragi Eyjólfsson 3, Kristján Ottó Hjálmsson 2, Þorvaldur Tryggvason 2, Harri Halldórsson 1, Ævar Smári Gunnarsson 1.
Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 14, 33,3% – Brynjar Vignir Sigurjónsson 2/2, 66,6%.
Mörk Fram: Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 7, Ívar Logi Styrmirsson 5/3, Rúnar Kárason 5, Reynir Þór Stefánsson 4, Eiður Rafn Valsson 3, Erlendur Guðmundsson 2, Sigurður Bjarki Jónsson 1, Arnar Snær Magnússon 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 7/1, 33,3% – Arnór Máni Daðason 4, 19%.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Staðan í Olísdeildum og næstu leikir.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -