- Auglýsing -

Valur vann portúgölsku meistarana í Lissabon

- Auglýsing -


Evrópubikarmeistarar Vals unnu portúgalska liðið Benfica í æfingaleik í dag, 25:24, en leikið var í Lissabon hvar Valsliðið er í vikulöngum æfingabúðum til undirbúnings fyrir nýtt keppnistímabil. Benfica eru ríkjandi deildar-, bikar- og Portúgalsmeistarar svo óhætt er að segja að um sannkallaðan meistaraslag hafi verið að ræða. Benfica-liðið verður einnig með í forkeppni Evrópudeildarinnar í haust. Lið Vals og Benfica eiga þar með margt sameinglegt sem endurspeglaðist e.t.v. í spennandi leik.


Leikurinn var í járnum framan af. Benfica náði að forystunni og var yfir, 6:4, þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Þá tók Anton Rúnarsson nýr þjálfari Vals leikhlé. Eftir leikhléið náðu Valsstelpur að jafna leikinn. Benfica var marki í hálfleik, 11:10.

Leikurinn hélst jafn áfram framan af seinni hálfleik. Síðan kom að því að Valsliðið náði frumkvæðinu og hafði mest fjögurra marka forskot, 20:16. Benfica beit frá sér undir lokin og var allt í járnum á lokakaflanum. Endaði leikurinn með eins marks sigri Vals 24-25 þar sem Benfica skoraði sitt síðasta mark þegar leikklukkan gall.

Anton Rúnarsson þjálfari leggur á ráðin með leikmönnum sínum í viðureigninni við Benfica í dag. Ljósmynd/Aðsend

Allar lögðu í púkkið

„Virkilega sterkur sigur hjá stelpunum þar sem liðsheildin skilaði sigri. Allar með framlag og lögðu í púkkið. Eftir leikinn var stelpunum boðið að skoða mikilfenglegan fótboltavöll félagsins og útsýnistúr um aðstöðu félagsins, einnig að skoða safn Benfica. Stelpurnar dvelja við virkilega góðar aðstæður hér í Lissabon þangað til næsta fimmtudags,“ segir í tilkynningu frá Val.

Mörk Vals: Lovísa Thompson 6, Elísa Elíasdóttir 5, Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 4, Ásdís Þór Ágústsdóttir 3/2, Mariam Eradze 2, Arna Karitas Eiríksdóttir 1, Hildur Björnsdóttir 1, Þórey Anna Ásgeirsdóttir 1/1, Ásrún Inga Arnarsdóttir 1/1, Auður Ester Gestsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 16.

Olísdeild kvenna – fréttasíða.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -