- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Valur vann sig í gegnum vandann og í undanúrslit

Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals.
- Auglýsing -

Valur er kominn áfram í undanúrslit Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik eftir jafntefli við Slavía Prag, 22:22, í síðari leik liðanna í átta liða úrslitum í N1-höllinni á Hlíðarenda í dag. Valur vann samanlagt 50:43, og mætir MSK IUVENTA Michalovce frá Slóvakíu í undanúrslitum eftir um mánuð.

Eftir hrikalega erfiðar 40 mínútur þar sem Valur lenti hvað eftir annað sex mörkum undir sneri Valsliðið blaðinu við. Varnarleikurinn var frábær og Hafdís Renötudóttir fór á kostum í markinu.

Þetta er í þriðja sinn sem kvennalið frá Íslandi kemst í undanúrslit í Evrópubikarkeppninni. ÍBV komst í undanúrslit 2004 og Valur 2006. Bæði lið töpuðu í undanúrslitum; ÍBV fyrir FC Nürnberg frá Þýskalandi og Valur beið lægri hlut fyrir rúmenska liðinu Tomis Constanta.

Frá upphafi leiksins náði Valur ekki upp sama varnarleik og markvörslu og í fyrri leiknum. Sóknarleikurinn var þar á ofan þungur með töpuðum boltum og öðrum mistökum til viðbótar að Michaela Malá varði vel í marki Slavía. Upp úr miðjum hálfleik skildu leiðir. Valur skoraði ekki mark í sex mínútur og eftir ríflega 22 mínútna leik var staðan orðinn ískyggileg fyrir Valsliðið. Slavía var sex mörkum yfir, 12:6, og staðan orðin nánast jöfn, samanlagt.

Við svo búið tók Ágúst Þór Jóhannsson sitt annað leikhlé. Upp úr því náði Valur að skora þrjú mörk í röð. Á Hafdísi Renöturdóttur rann hamur í markinu.

Á síðustu sekúndum fyrri hálfleiks fór vippa Hildar Björnsdóttur í þverslá marks Slavíu. Mark hefði verið dýrmætt þar sem Valur átti boltann í upphafi síðari hálfleiks. Staðan í hálfleik var 14:9, Slavíu í vil.

Upphafskafli síðari hálfleiks var Valsliðinu erfiður. Góð færi fóru forgörðum, leikmenn Slavía náðu fráköstum eftir markvörslu Hafdísar og eins eftir að hún varði vítakast. Slavía náði sex marka forskoti og dansaði nærri því sjöunda.

Loksins fór gæfan að snúast á sveif með Valsliðinu sem herti róðurinn enn meira við mótlætið. Tékkarnir lengdu sóknir sínar og teygja lopann hvað þeir gátu.

Eftir tíu mínútur síðari hálfleik og tvö mörk Theu Imani Sturludóttur í röð var munurinn kominn niður í þrjú mörk, 17:14.


Þórey Anna Ásgeirsdóttir dró forskot Slavíu niður í tvö mörk, 18:16, er hún skoraði úr hægra horni 14 mínútum fyrir leikslok.
Eftir að Valur náðu að minnka muninn í eitt til tvö mörk tókst liðinu að halda sjó sem nægði til að komast áfram samanlagt.


Leikmenn Vals hafa svo sannarlega sterk bein og mikla reynslu sem sást best að þessu sinni þegar liðið brotnaði ekki við mótlætið fyrstu 40 mínútur leiksins. Það undirstrikar hversu öflugt Valsliðið er. Rétt er að hrósa leikmönnum liðsins fyrir að sýna mikinn karakter þegar á móti blés. Hafdís markvörður fær síðan sérstakt hrós fyrir að halda Valsliðinu á floti þegar illa og gekk og loka svo markinu á köflum í síðari hálfleik.

Mörk Vals: Þórey Anna Ásgeirsdóttir 8, Thea Imani Sturludóttir 7, Elín Rósa Magnúsdóttir 3, Hildirgunnur Einarsdóttir 2, Hildur Björnsdóttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 15, 41,7%.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -