Róðurinn þyngist hjá Alfreð Gíslasyni og félögum í þýska landsliðinu. Í gær greindust fimm leikmenn smitaður af covid og í dag bættust tveir til viðbótar. Til að bæta gráu ofan á svart þá greindist varamaður sem kallaður var inn um liðna helgi með covid við landamæraskoðun við komuna til Ungverjalands.
Alfreð hefur aðeins úr 14 mönnum að velja í leiknum í dag við Pólverja en alla jafna eru 16 leikmenn í hóp hvers liðs á Evrópumótinu. Af mönnunum 14 er aðeins einn markvörður, Johannes Bitter. Hann fékk grænt ljós til þátttöku á mótinu rétt fyrir hádegið í dag eftir að hafa komið til Bratislava í nótt og farið rakleitt í PCR próf vegna kórónuveiru.
Bitter var í 35 manna hópnum sem Alfreð valdi en hafði beðist undan að taka þátt í mótinu nema ef í nauðirnar ræki. Bitter svaraði kalli Alfreðs í gær eftir að tveir markverðir þýska liðsins voru orðnir smitaðir. Sá þriðji bættist við í dag. Ljóst er að ekkert má bera út af hjá Bitter í leiknum við Pólverja síðar í dag.
Viðureign Þjóðverja og Pólverja hefst klukkan 17. Lið beggja þjóða eru komin áfram í milliriðla. Viðureignin sker hinsvegar úr um hvort þeirra fær efsta sætið og tekur með sér stig inn í milliriðil.