„Nú verðum við að fylgja eftir sigrinum á Grænlendingum og vinna næstu leiki einnig, gegn Paragvæ og síðan Kína,“ sagði annar markvörður íslenska landsliðsins, Hafdís Renötudóttir, í samtali við handbolta.is í Frederikshavn. Framundan er næsti leikur íslenska landsliðsins í forsetabikarkeppni heimsmeistaramótsins sem verður í dag við landslið Paragvæ. Flautað verður til leiks klukkan 17 í Nord Arena í Frederikshavn.
Betri en Grænlendingar
„Landslið Paragvæ er betra en grænlenska liðið. Þær eru að skjóta vel á markið, eru mjög sprækar, mjög fljótar á fótunum. Ég hef séð leiki með þeim og tekið niður nótur um hvar þær helstu er að skjóta á markið,“ sagði Hafdís sem átti stórleik í síðari hálfleik gegn Grænlendingum, varði 10 skot, 60%, og skoraði eitt mark.
„Samvinna á milli varnar og markmanns skiptir miklu máli í leiknum. Hún var mjög góð í leiknum við Grænlendinga.
Við verðum að mæta af fullum krafti frá byrjun. Það er ekkert vanmat af okkar hálfu. Við ætlum okkur engu að síður að vinna leikinn. Teljum okkur vera betri en til þess verðum við að koma af þunga inn í leikinn frá fyrstu mínútu. Við bæði getum og viljum vinna leikinn eins og aðra sem eftir eru í mótinu og taka bikarinn með okkur heim,“ sagði Hafdís Renötudóttir ákveðin, markvörður landsliðsins í samtali við handbolta.is.
Textalýsing úr Nord Arena
Viðureign Íslands og Paragvæ hefst klukkan 17 í dag. Þeir sem ekki eiga þess kost að fylgjast með sjónvarpsútsendingu RÚV eiga þess vonandi kost að fylgjast með textalýsingu handbolta.is úr Nord Arena. Handbolti.is fylgir íslenska landsliðinu frá upphafi til enda HM í gegnum súrt sem sætt.