- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vantaði mann strax og sló til

Elvar Ásgeirsson kom af krafti til leiks með Nancy í kvöld. Mynd/Nancy
- Auglýsing -

„Þjálfari Nancy sótti fast eftir að fá mig til félagsins. Þar með var ég kominn í aðra stöðu en ég var í hjá Stuttgart. Maður sækist eftir að fá traustið og leika sem mest og fá stærri hlutverk,“ sagði Elvar Ásgeirsson sem loksins í gær gekk til liðs við franska B-deildarliðið Nancy en skiptin frá Stuttgart í Þýskalandi hafa legið í loftinu síðan í lok janúar.

Loksins var síðustu hindrunum rutt úr vegi í upphafi vikunnar og Elvar er fluttur til Frakklands eftir hálfs annars árs veru hjá Stuttgart í suðurhluta Þýskalands. Sé litið á landakort þá er Nancy nánast í beinni stefnu vestur frá Stuttgart og svo gott sem miðja vegu milli Parísar og Stuttgart.

Samningur Elvars við Nancy er til eins og hálfs árs með möguleika á eins árs viðbót.

Stóð til að koma í sumar

„Ég var í viðræðum við Nancy um að koma til félagsins í sumar en eftir að miðjumaður liðsins sleit hásin fyrir skömmu þá vildu forráðamenn félagsins flýta komu minni. Þeir ætla sér upp í vor og það verkefni sem þeir eru með í gangi veltur talsvert á því að það takist. Það hefur meðal annars nokkuð verið fjárfest fyrir næsta tímabil. Þess vegna varð Nancy að fá mann núna til að hlaupa í skarðið fyrir miðjumanninn,“ sagði Elvar við handbolta.is.

Gat losnað strax

„Ég hafði fengið orð frá þjálfara Stuttgart sem er jafnframt íþróttastjóri um að ef eitthvað spennandi kæmi upp á borðið hjá mér í byrjun ársins þá myndi félagið ekki standa í vegi fyrir mér. Eftir hafa farið vel yfir málið þá var ákveðið á kýla á þennan flutning til Nancy strax. Auk þess þá er ekki víst að glugginn standi opinn fyrir mig hjá Nancy í vor ef þeir hefðu tekið annan núna til að hlaupa í skarðið fyrir þann meidda,“ sagði Elvar sem verður gjaldgengur í næsta leik liðsins á laugardagskvöld gegn Massy Essonne á heimavelli.

Mikil gróska hefur verið í frönskum handknattleik á undanförnum árum. Frábær árangur karla,- og kvennalandsliða Frakka á undangengnum aldarfjórðungi eða svo hefur orðið til að gjörbylta umhverfi íþróttarinnar í landinu til betri vegar.

Stefnan er að fara upp

„Aðstaða félagsins kom mér skemmtilega á óvart auk þess sem hversu mikið fjárhagslega er verið að leggja í liðið. Það er klárlega stefna félagsins að fara upp í efstu deild í vor og sannarlega væri það draumur fyrir mig að komast þar með aftur í aðra af tveimur sterkustu deildum heims. Þar með geta þessi skipti orðið algjör negla,“ sagði Elvar og bætti við.

„Ég er spenntur fyrir að takast á við þetta verkefni. Það eru hörku leikmenn í liðinu, stórir og sterkir sem ég hlakka til að leika með,“ sagði Elvar Ásgeirsson nýr leikmaður franska B-deildarliðsins Nancy.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -