„Við vorum að elta nánast allan leikinn. Okkur tókst að komast yfir, 5:3, en eftir það var Fram með yfirhöndina. Okkur tókst ekki að loka nógu vel í vörninni og fengum líka mörg hraðaupphlaup á okkur. Auk þess þá varði Hafdís talsvert af skotum okkar,“ sagði Þórey Anna Ásgeirsdóttir leikmaður Vals í samtali við handbolta.is eftir tapið fyrir Fram, 25:22, í þriðju viðureign liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik í Framhúsinu í kvöld.
„Við sýndum það í tveimur fyrstu leikjunum að það er alveg gerlegt að opna vörn Framliðsins. Til þess verðum við hinsvegar að skila betri grunnvinnu og sækja betur á markið og vera ákveðnari. Mér fannst vanta meiri ákveðni í okkur að þessu sinni,“ sagði Þórey Anna ákveðin á svip.
Sýnum okkar rétta andlit á sunnudaginn
„Við getum vel lagað það sem upp á vantar fyrir næsta leik. Við vitum vel hvað við getum. Eftir svona frammistöðu þá langar manni helst út á völlinn aftur og leika annan leik. Þess vegna er gott að það er stutt í næstu viðureign. Þá sýnum við okkar rétt andlit og jöfnum metin,“ sagði Þórey Anna Ásgeirsdóttir sem er óðum að nálgast sitt besta leikform eftir að hafa verið fjarverandi lengst af á síðasta tímabili og fram eftir þessu eftir að hafa alið barn á síðasta ári.