„Ég stóð nánast út á miðri flugbraut í Kaupmannahöfn á leiðinni heim til Þrándheims þegar Snorri hringdi óvænt og sagði mér að ég yrði að koma yfir til Kristianstad. Ég fór heim, pakkaði niður og lagði af stað aftur um morguninn,“ segir Sveinn Jóhannsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í Zagreb í morgun. Sveinn var óvænt kallaður inn í landsliðið í síðustu viku þegar Arnar Freyr Arnarsson meiddist í fyrri vináttuleiknum við Svía ljóst var að Arnar Freyr gæti ekki tekið þátt í HM.
„Auðvitað var þetta óvænt en um leið skemmtilegt. Maður er auðvitað alltaf stoltur af því að vera valinn í landsliðið. Ég er ánægður með að fá þennan möguleika að taka þátt í HM,“ segir Sveinn sem sagðist hafa verið svekktur að hafa ekki verið valinn í upphaflega hópinn.
Sveinn er að hefja þátttöku á öðru stórmóti sínu en hann var með á EM í Svíþjóð 2020.
Nánar er rætt við Svein í meðfylgjandi myndskeiði.
Sjá einnig: Hver er Sveinn Jóhannsson?
Fyrsti leikur íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu 2025 verður gegn Grænhöfðaeyjum í Zagreb Arena á fimmtudaginn, 16. janúar. Flautað verður til leiks klukkan 19.30. Þar á eftir verður leikið gegn Kúbu 18. janúar og Slóvenum 20. janúar. Framhaldið ræðst síðan af árangrinum í leikjunum þremur.