„Menn voru mættir hér á fullu. Þannig hófst leikurinn og þannig enduðum við leikinn. Það var aldrei gefin tomma eftir,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik karla, í samtali við handbolta.is eftir sigurinn á Litháen, 36:20, í Laugardalshöll í gærkvöld. Leikurinn var sá fyrsti hjá íslenska landsliðinu í undankeppni EM2022.
„Varnarleikurinn var mjög góður. Okkar tókst að halda áfram að byggja ofan á það sem vorum að vinna í síðast. Það er langur tími liðinn síðan landsliðið kom saman síðast, eða í janúar. En það var engu líkara en að menn hafi verið að leika saman í gær. Það var ánægjulegt að sjá hversu fljótir menn voru í gang og að láta hlutina virka,“ sagði Guðmundur Þórður.
„Mér fannst sóknarleikurinn einnig vera mjög góður. Við fengum fjölbreytt og góð marktækifæri.“
Guðmundur Þórður hrósaði leikmönnum ennfremur fyrir að hafa haldið áfram á fullu allan leikinn en ekki slakað á verandi með þægilegt níu marka forskot í hálfleik. „Það er ákveðinn prófsteinn á lið hvort þau geta fylgt eftir góðum leik áfram inn í síðari hálfleikinn og verið á fullum krafti allt til loka. Með það var ég mjög ánægður með eins og margt annað í okkar leik að þessu sinni.“
Næst kemur íslenska landsliðið saman í kringum áramótin til undirbúnings fyrir heimsmeistaramótið sem haldið verður í Egyptalandi. Áður en það hefst 13. janúar leikur landsliðið tvisvar sinnum við landslið Portúgal 6. og 10. janúar í riðlakeppni EM2022, framhald á undankeppninni sem hófst í Laugardalshöll í gærkvöldi.