„Það var gott hjá okkur að klára einvígið að þessu sinni og fylgja eftir leiknum á undan sem var mjög sterkur af okkar hálfu,“ sagði Eva Björk Davíðsdóttir leikmaður Stjörnunnar eftir 10 marka sigur Stjörnunnar á Aftureldingu í umspili Olísdeildar kvenna, 28:18, að Varmá. Um var að ræða þriðja sigur Stjörnunnar í fjórum leikjum. Stjarnan heldur þar með sæti sínu í Olísdeildinni.
„Það var mjög ljúft að geta klárað leikinn í dag mjög örugglega,“ sagði Eva Björk en sigur Stjörnunnar í leiknum var aldrei í hættu gegn Aftureldingarliðinu sem náði sér aldrei á strik.
„Okkur tókst að ná upp mjög góðri vörn og markvörslu. Hinsvegar er það mín skoðun að við eigum að geta skorað mikið fleiri mörk en við gerðum. Það var smábras í sóknarleiknum en við misstum aldrei móðinn og náðum að sýna karakter þótt ýmislegt gengi ekki upp,“ sagði Eva Björk sem er leikreyndasti leikmaður Stjörnunnar og lék einnig með landsliðinu um árabil og á Norðurlöndunum.
Var biti að kyngja
Eva Björk segir ennfremur að meira búi í Stjörnuliðinu en það hefur sýnt og það sér skoðun hennar að Stjarnan eigi alls ekki heima í umspili Olísdeildar.
„Það var smá biti að kyngja því að verða að taka þátt í umspilinu. Þegar þangað var komið urðum við að sýna fram á að við ættum ekki heima í þessari keppni. Ég held að við höfum sýnt fram á það í leikjunum,“ sagði Eva Björk en alls vann Stjarnan fimm leiki af sex í umspilinu, í úrslitum og undanúrslitum.
Lengra viðtal við Evu Björk er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Sjá einnig:
Stjarnan vann örugglega að Varmá – heldur sæti sínu í Olísdeildinni
Umspil Olís kvenna 2025: leikjadagskrá og úrslit
Leiðinlegt að enda á þennan hátt