- Auglýsing -
- Auglýsing -

Var ótrúlega gaman að sjá liðið leika að þessu sinni

Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari KA, Ragnar Snær Njálsson, Guðlaugur Arnarsson og fleiri KA-menn gefa ekkert eftir. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Fyrst og fremst vorum við mjög góðir varnarlega að þessu sinni. Við höfum verið flottir í sókninni í síðustu leikjum og vorum það einnig í dag en fyrst og fremst var varnarleikurinn góður auk þess sem Nikolai markvörður varði vel, var með um 40% markvörslu sem hjálpaði okkur vel, ekki síst á mikilvægum tímum,“ sagði Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA við handbolta.is eftir að KA vann Hauka, 28:25, í Olísdeild karla í handknattleik á Ásvöllum í gær. Um var að ræða langþráðan sigur KA eftir sex tapleiki í röð í deildinni auk taps í Poweradebikarnum fyrir Stjörnunni.

Ólafur var frábær

„Ólafur Gústafsson var einnig alveg frábær. Þetta var hans besti leikur á tímabilinu. Ekki þarf að fjölyrða um hvað svona frammistaða gefur okkur mikið,“ sagði Halldór en Ólafur skoraði m.a. sjö mörk í átta skotum og sýndi gamalkunn tilþrif í sókninni auk þess að vera eins og klettur í vörninni.

Margir lögðu sitt að mörkum

„Það var ótrúlega gaman að sjá liðið leika í dag. Þetta var bara mjög flott frammistaða hjá liðinu. Margir leikmenn lögðu sitt að mörkum. En eins og sagði eftir leikinn á undan þá er annar leikur innan skamms sem við verðum líka að vinna,“ sagði Halldór Stefán og vísar til viðureignar KA við Gróttu í KA-heimilinu á föstudagskvöldið. Aðeins eins stigs munur er á liðunum í áttunda og níunda sæti eins og sjá má þegar smellt er á stöðuna í Olísdeildinni hér fyrir neðan.

Staðan í Olísdeildum.

Engin örvænting

Halldór Stefán segir að vinna hans og leikmanna KA-liðsins hafi fyrst og fremst snúið að því að verða betri í því sem þeir eru að fást við í stað þess að snúa öllu á hvolf í örvæntingu.

„Við höfum ekki breytt miklu. Fyrst og fremst reynt að vinna í að finna okkar takt við varnarleikinn og verða betri. Okkur fannst það takast á móti Stjörnunni en við misstum aðeins niður þráðinn gegn ÍBV sem reyndar skoraði mörg mörk eftir fyrstu bylgju. Mér fannst við ná mörgu góðu fram í dag gegn Haukum,“ sagði Halldór Stefán.

Höfum oft leikið vel

Halldór Stefán segir að þrátt fyrir marga tapleiki upp á síðkastið þá sé það skoðun sín að liðið hafi á tíðum leikið vel þótt það hafi ekki dugað til sigurs. „Við töpuðum tvisvar gegn mjög vel mönnuðu liði Stjörnunnar. Í leiknum við ÍBV þá voru það fimm til sex mínútna kaflar sem fóru með leikinn af okkar hálfu. Leikurinn við Hauka var framhald af því sem við höfum verið að gera upp á síðkastið.“

Erum á góðri braut

„Vissulega svíður okkur tapið fyrir HK og eins gegn Selfossi fyrir jól en um það þýðir ekkert að tala núna. Við erum á flottri braut um þessar mundir sem gefur okkur von um að ná í enn fleiri stig á næstunni,“ sagði Halldór Stefán Haraldsson við handbolta.is. Fimm umferðir eru eftir af Olísdeild karla.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -