- Auglýsing -
- Auglýsing -
-Auglýsing-

„Var ótrúlegt að upplifa þetta“

- Auglýsing -

„Frammistaðan hjá strákunum var hreint ótrúleg. Þeir geta svo sannarlega verið stoltir,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla í viðtali við handbolta.is eftir sigurinn magnaða á Svíum, 35:27, á Evrópumótinu í handknattleik karla í Malmö Arena í kvöld.

Skein af mönnum

„Tíminn frá Króatíuleiknum hefur verið erfiður, ekki bara það að tapa með einu marki heldur það að okkur fannst við eiga inni. Í kvöld skein af mönnum baráttan og leikgleðin frá fyrstu mínútu, nokkuð sem við söknuðum í leiknum á undan. Það var ótrúlegt að upplifa þetta,“ sagði Snorri Steinn af yfirvegun.

„Þegar Svíar minnkuðu muninn í eitt mark í síðari hálfleik sýndu strákarnir úr hverju þeir eru gerðir. Þeim tókst að núllstilla sig og halda áfram að sýna þor. Það sýndi risakarakter því á þessum tíma var stemningin að vaxa með Svíum utan vallar sem innan,“ sagði Snorri Steinn.

Ótrúlegur stuðningur

Landsliðsþjálfarinn sagði stuðninginn sem landsliðið hefur fengið í öllum leikjum mótsins hafa verið ómetanlegan. Það hafi verið undirstrikað rækilega í kvöld.

„Ég átti aldrei von á að ganga inn í keppnishöll í leik við Svía í Svíþjóð og upplifa það sem ég sá og fann í kvöld. Að finna fyrir svona svakalegum stuðningi, löngu fyrir leik, þegar þjóðarsöngurinn var leikinn og meðan á leiknum stóð. Þetta var ótrúlegt. Ég er mjög þakklátur fyrir.“

Gefur aðeins tvö stig

Snorri ítrekaði að sigurinn á Svíum gæfi aðeins tvö stig: „Við Íslendingar erum fljótir að fara fram úr okkur. Vissulega gefur sigurinn okkur þann möguleika að vera áfram með bullandi séns í toppbaráttu riðilsins. Hins vegar verðum við áfram að halda vel á spilunum. Leikurinn sýndi hvers liðið er megnugt en við þurfum fleiri frammistöður eins og þessa á næstunni. Það er allt í lagi að fagna þegar vel gengur,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í viðtali við handbolta.is í Malmö Arena í kvöld.

Næsti leikur íslenska landsliðsins verður á þriðjudaginn gegn Sviss. Flautað verður til leiks klukkan 14.30.

A-landslið karla – fréttasíða.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -