„Þetta var allt sérstakt. Mér var sagt eftir að hafa æft og leikið með liðinu síðustu vikur að ég ætti að fara heim 15. janúar, semsagt í dag. Síðan komu upp meiðsli og þá var ég næsti maður inn,“ segir Hafsteinn Óli Ramos Rocha landsliðsmaður Grænhöfðaeyja og leikmaður Gróttu sem kominn er til Zagreb og verður þar á næstunni.
Skyndiega opnuðust dyr
Fyrir nokkrum dögum leit úr fyrir að hann tæki ekki þátt í HM eftir að fækkað var niður í 16 leikmenn en skyndilega opnuðust dyrnar á ný og í stað þess að fara með Gróttu í æfingferð til Tenerife mætir Hafsteinn Óli til leik með landsliði Grænhöfðaeyja á HM í handbolta og það gegn Íslandi í fyrsta leik annað kvöld klukkan 19.30.
„Þetta voru mikil gleðitíðindi fyrir mig, að fá tækifæri og HM,“ sagði Hafsteinn Óli þegar hann var rétt kominn inn á hótel í Zagreb í dag eftir æfingu með landsliði Grænhöfðaeyja. Hafsteinn og félagar búa á sama hóteli og íslenska landsliðið í borginni.
Skrifað í skýin
„Það var einhvernveginn skrifað í skýin hjá mér að mæta íslenska landsliðinu í fyrsta leik á HM eftir það sem á undan er gengið auk þess sem ég lék með yngri landsliðum Íslands á sínum tíma, var m.a. samherji einhverra sem eru í íslenska liðinu í dag. Þetta er allt saman fljótt að breytast. Ég hef spilað með mörgum af þessum strákum og sumir eru vinir mínir,“ segir Hafsteinn Óli sem ætlar ekki að taka undir þegar íslenski þjóðsöngurinn verður leikinn fyrir viðureign þjóðanna annað kvöld.
Lengra við er við Hafstein Óla í myndskeiði ofar í þessari frétt.