„Maður var svolítið lengi að ná sér niður eftir leikinn. Þetta var algjör sturlun. En nú líður mér bara orðið vel,“ segir Katrín Tinna Jensdóttir landsliðskona í handknattleik við handbolta.is í Stuttgart en viðtalið var tekið rétt fyrir hádegið í dag. Katrín Tinna fór hamförum, jafnt í vörn sem sókn með íslenska landsliðinu gegn Þýskalandi í gær og var af mörgum talin hafa verið besti leikmaður íslenska liðsins.
Þýskaland vann með sjö marka mun, 32:25.
Heiður að vera með
„Ég náði ekki alveg að taka utan um stemninguna og aðstæðurnar fyrr en eftir leik þegar maður slakaði aðeins á og gat horft upp í stúkuna. Það var heiður að fá tækfæri til þess að taka þátt í leiknum,“ segir Katrín Tinna sem aldrei hefur áður tekið þátt í handboltaleik með jafn mörgum áhorfendum og í gær.
„Mér fannst við ná að sýna okkar bestu hliðar í leiknum og halda þýsku stelpunum við efni,“ segir Katrín Tinna sem skoraði fjögur mörk í fimm skotum af línunni og batt saman íslensku vörnina stóran hluta leiksins.
Katrín Tinna er að taka þátt í sínu þriðja stórmóti með landsliðinu en er í fyrsta sinn í stóru hlutverki. „Það tekur andlega á að halda hausnum rétt stilltum allan leikinn. Ég viðurkenni að það kom upp pirringur um tíma vegna peysutogs en það er bara hluti af leiknum,“ sagði Katrín Tinna sposk á svip.

Tekur stærra hlutverki fagnandi
„Ég tek stærra hlutverki með landsliðinu fagnandi. Það er nokkuð sem ég hef beðið eftir. Ég nýti þá reynslu sem ég hef frá þátttöku á undanförnum mótum þótt hlutverkið hafi oft ekki verið stórt. Það hjálpar mér klárlega mjög mikið að hafa farið á tvö stórmót þótt hlutverkið hafi ekki verið stórt.
Mér hefur gengið vel með ÍR í vetur og það skilar sér líka út á leikvöllinn núna,“ segir Katrín Tinna Jensdóttir landsliðskona í handknattleik sem spilar sinn 30. landsleik á morgun gegn Serbíu í annarri umferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins.
Lengra viðtal er við Katrínu Tinnu í myndskeiðinu hér fyrir ofan.
HM kvenna ”25 – dagskrá, riðlakeppni, úrslit
Níu léku í fyrsta sinn á heimsmeistaramóti – myndir
Landslið Íslands á HM kvenna 2025




