Predrag Boskovic varaforseti Handknattleikssambands Evrópu, EHF, var handtekinn á mánudaginn og yfirheyrður af yfirvöldum í heimalandi sínu, Svartfjallalandi. Ekki er ljóst af hvaða ástæðum Boskovic var færður til lögreglu en talið að það tengist pólitísku starfi hans og erjum á milli stjórnarflokka og stjórnar andstöðu.
Boskovic var ráðherra í Svartfjallalandi frá 2005 til 2020, síðast varnarmálaráðherra frá 2016 til 2020. Frá árinu 2023 hefur flokkur sá sem Boskovic tilheyrir verið í stjórnarandstöðu.
Frá 2011 til 2016 var Boskovioc forseti handknattleikssambands Svartfjalllands er hann var kjörinn annar varaforseti EHF. Boskovioc er 53 ára gamall.
Ekki er talið að handtaka Boskovic tengist störfum hans fyrir Handknattleikssamband Evrópu.
Í tilkynningu frá EHF segir að eins og sakir standi þá hafi lögreglurannsóknin ekki áhrif á störf eða stöðu Boskovic innan EHF.
Eftir því sem Handball-World segir frá og vitnar í fjölmiðla í Bosníu þá mun Boskovic hafa verið látinn laus í dag. Óljós er engu að síður hver staða hans er.