Viktor Gísli Hallgrímsson, landsliðsmarkvörður, lét sér ekki nægja að standa vel fyrir sínu á milli stanganna í marki GOG í sigurleiknum, 30:25, á Skjern í dag heldur skoraði hann einnig eitt mark. Sigurinn tryggði GOG áframhaldandi örugga forystu í deildinni. GOG er sem fyrr með þriggja stiga forskot á Aalborg og á auk þess leik til góða.
Viktor Gísli varði 11 skot í marki GOG og var með 32% hlutfallsmarkvörslu. Hann var í markinu allan leikinn að undanskildu einu vítakasti. Markið sem Viktor Gísli skoraði er hans fyrsta á keppnistímabilinu. Með því kom hann GOG í fjögurra marka forsystu, 23:19, á 42. mínútu.
Elvar Örn Jónsson skoraði fimm mörk í níu tilraunum fyrir Skjern-liðið. Hann var markhæsti leikmaður liðsins.
Íslendingar komu ekki mikið við sögu í fyrri leik dagsins í dönsku úrvalsdeildinni þegar SönderjyskE vann Kolding, 29:26, á heimavelli. Sveinn Jóhannsson fékk lítið að spreyta sig í liði SönderjyskE og Ágúst Elí Björgvinsson varði eitt skot af fjórum í marki Kolding.
Staðan í dönsku úrvalsdeildinni:
GOG 30(16), Alaborg 27(17), Holstebro 24(17), Bjerringbro/Silkeborg 23(17), SönderjyskE 19(17), Skjern 19(17), Kolding 17(17), Frederica 16(16), Skanderborg 16(17), Mors Thy 13(17), Ribe-Esbjerg 13(17), Aarhus 12(17), Ringsted 5(17), Lemvig 2(17).