„Úff, það er erfitt að segja hvað gerðist en vörnin okkar var léleg og markvarslan lítil,“ sagði handknattleikskonan Sandra Erlingsdóttir í skilaboðum til handbolta.is í dag eftir að lið hennar, EH Aalborg, fékk slæman skell í toppbaráttu dönsku 1. deildarinnar í handknattleik í dag þegar það sótti Hadsten heim en Hadsten er í nágrenni Árósa. Lokatölur, 36:24. Staðan í hálfleik var 18:12, fyrir Hadsten.
Þetta var annað tap EH Aalborg á leiktíðinni. Sandra skoraði eitt mark í dag. „Við skoruðum 24 mörk sem á að vera alveg nóg en við fengum á okkur alltof mörg mörk,“ sagði Sandra ennfremur en hún gekk til liðs við EH Aalborg í sumar og hefur gert það gott með liðinu.
Hadsten komst í efsta sæti deildarinnar með sigrinum. Liðið hefur 16 stig að loknum 11 leikjum. Sandra og félagar eru einnig með 16 stig og eiga leik til góða á Hadsten. Ringköbing er skammt á eftir með 15 en hefur lokið níu leikjum. Bjerringbro hefur 14 stig í fjórða sæti eins og SönsderjyskE í fimmta sæti. Ringsted er þar á eftir með 13 stig og ljóst að framundan er æsileg barátta um efsta sæti deildarinnar sem veitir keppnisrétt í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.
Sandra og samherjar sækja leikmenn Ringsted heim á þriðjudagskvöldið.