Vefur Handknattleikssambands Íslands var einn þeirra vefja sem varð undir hæl netárása sem gerðar voru í morgun á nokkrar vefsíður og hýsingaraðila hér á landi. Kjartan Vídó Ólafsson markaðsstjóri HSÍ staðfesti þetta í samtali við handbolta.is.
„Vefurinn var úti í um fimmtán mínútur,“ sagði Kjartan Vídó og bætti við að vefsíðan væri opinn á nýjan leik og virtist virka eins og ekkert hafi ískorist.
Dreifðar álagsárásir
„Dreifðum álagsárásum (DDoS attack) var beint gegn einstaka vefsíðum og hýsingaraðilum sem gerði það að verkum að margar vefsíður lágu tímabundið niðri. Viðbragðsaðilar hafa unnið að því að koma vefsíðum upp og eflt varnir sínar,” segir í tilkynningu á vef CERT-IS.
Ekki er útilokað að fleiri árásir verða gerðar á íslenska netumdæmið og hvetur CERT-IS rekstar- og öryggisstjóra til að vera á varðbergi og tilkynna allt grunsamlegt á [email protected].