Íslenska landsliðið í handknattleik karla fer með fjögurra marka sigur í farteskinu frá Bregenz í Austurríki eftir að hafa lagt landslið heimamanna, 34:30, í fyrri viðureigninni í umspili um sæti á heimsmeistaramótinu. Í hálfleik var munurinn fimm mörk, 18:13. Síðari leikurinn verður á Ásvöllum á laugardaginn og hefst klukkan 16. Samanlögð úrslit leikjanna ráða því hvort það verða Austurríkismenn eða Íslendingar sem eiga sæti á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Pólland og í Svíþjóð í janúar á næsta ári.
Fyrri hálfleikurinn var góður af hálfu íslenska liðsins. Það tók frumkvæðið snemma og hleypti austurríska liðinu aldrei yfir þótt því hafi tekist að jafna í fáein skipti. Þegar tæplega tíu mínútur voru til leiksloka var munurinn tvö mörk, 12:10. Þá tók íslenska liðið leikinn yfir og skoraði sex mörk gegn þremur og fór með gott forskot inn í háfleikinn 18:13.
Fyrstu 15 mínútur síðari hálfleiks voru öflugar af hálfu íslenska liðsins. Það réði lögum og lofum. Sóknarleikurinn gekk vel og varnarleikurinn einnig. Elvar Ásgeirsson kom Íslandi sjö mörkum yfir, 27:20, þegar rétt rúmlega 15 mínútur voru til leiksloka. Þá tóku við fimm hræðilegar mínútur hjá íslensku leikmönnunum. Hver mistökin ráku önnur í sókninni með þeim afleiðingum að Austurríkismenn skoruðu nokkur mörk eftir hraðaupphlaup. Skyndilega var forskot Íslands komið niður í eitt mark, 28:27, þegar átta mínútur voru til leiksloka og Robert Weber skoraði úr vítakasti.
Á lokakaflanum tókst íslenska liðinu aðeins að rétta kúrsinn og tryggja sér sigurinn en tæpara gat það varla verið eins og málum var komið á kafla.
Í 45 mínútur sýndi íslenska liðið styrk sinn. Slíkan leik verður að leika í 60 mínútur á laugardaginn.
Hornamennirnir Bjarki Már Elísson og Óðinn Þór Ríkharðsson voru bestir. Bjarki Már skorað 11 mörk úr 13 skotum en fór illa að ráði sínu í hraðaupphlaupi undir lokin í viðkvæmri stöðu. Óðinn Þór skoraði sjö mörk úr níu skotum og undirstrikaði styrk sinn. Aron Pálmarsson var öflugur á köflum og tók af skarið á lokakaflanum þegar staðan var orðin viðkvæm. Gísli Þorgeir Kristjánsson var sterkur í sóknarleiknum. Línumenn verða hins vegar að gera mikið betur.
Varnarleikurinn var allt of kaflaskiptur og þar af leiðandi markvarslan einnig. Björgvin Páll Gústavsson varði vel á lokakafla fyrri hálfleiks og lagði grunn að forskotinu í hálfleik.
Mörk Íslands: Bjarki Már Elísson 11/4, Óðinn Þór Ríkharðsson 7, Aron Pálmarsson 4, Gísli Þorgeir Kristjánsson 4, Ómar Ingi Magnússon 3, Janus Daði Smárason 1, Elvar Örn Jónsson 1, Elvar Ásgeirsson 1, Ýmir Örn Gíslason 1, Elliði Snær Viðarsson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 7/1, 33,3% – Viktor Gísli Hallgrímsson 3, 23,1%.
Mörk Austurríkis: Nykola Bilyk 6, Boris Zikovic 6, Juluan Ranftl 5, Lukas Hutecek 4, Robert Weber 4/2, Tobias Wagner 3, Sebastian Frimmel 2.
Varin skot: Rald Patrick Häusle 5, 18,5% – Constantin Möstl 5, 29,4%.
Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í Bregenz í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.