o
„Ég er stoltur af mínu liði. Við mættum með mikið hjarta í þessa viðureign verandi með leikmenn fædda 2006, 2007 og 2008 í lykilhlutverkum og náum að vera í hörkuleik við annað af tveimur bestu liðum Frakklands um þessar mundir,“ segir Sigursteinn Arndal þjálfari FH eftir sjö marka tap, 37:30, fyrir Fenix Toulouse í Frakklandi í kvöld í fyrsta leik liðsins í Evrópubikarkeppninni í handknattleik. Franska liðið skoraði þrjú síðustu mörkin og því var munurinn meiri þegar upp var staðið en lengst af viðureignarinnarþ
Refsar fyrir hver mistök
„Að sama skapi erum við leika á hærra leveli en við þekkjum áður. Andstæðingurinn refsar fyrir öll mistök fyrir því fengum við að finna fyrir,“ segir Sigursteinn og undirstrikar að eitt af næstu verkefnum er að draga úr mistökum. „Við verðum að fækka mistökum, vera agaðri og bæta okkar leik. Við verðum að vera fljótir að bæta okkur,“ segir Sigursteinn.
Þjálfarinn undirstrikar mikilvægi þess að taka þátt í jafn sterkri keppni og Evrópudeildin er. „Ungu leikmennirnir fundu hvað þarf til og ég veit að næsta lyftingaæfing verður öflug hjá þeim. Við verðum taka allt það sem við getum úr þessu.“
Verð stórkostlega svekktur
Sigursteinn hvetur allt handboltaáhugafólk til þess að fylkja sér á bak við FH og Val í fyrstu heimaleikjum liðanna í Kaplakrika á næsta þriðjudag. FH tekur á móti Gummersbach og Valur leikur við Porto.
„Ég verð stórkostlega svekktur ef það verður ekki fullt í Kaplakrika á þriðjudaginn. Allir ungu strákarnir í þessu liðum eiga það svo sannarlega skilið að fá fullan stuðning. Þess vegna biðla ég til fólks að tryggja sér miða sem allra, allra fyrst,“ segir Sigursteinn Arndal þjálfari FH.
Miðasala á handboltaveisluna í Kaplakrika er á stubb.is – smellið hér.
Myndskeiðsviðtal er við Sigurstein þjálfara FH efst í þessari frétt. Viðtali fékk handbolti.is sent frá Valgeiri Þórði Sigurðssyni sem er með FH í för í Toulouse.
Sjö marka tap FH-inga í Toulouse
Evrópudeild karla “24 – riðlakeppni 32-liða – 1. umferð, úrslit