„Ég viðurkenni að ég veit ekki mikið um þetta lið sem við erum að fara að mæta enda hefur verið erfitt að fá glöggar upplýsingar um það,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Íslandsmeistara Vals, spurður um hvað hann vissi um væntanlega mótherja Vals, króatíska liðið RK Porec.
Valur og RK Porec mætast í dag og á morgun í Porec í 1. umferð Evrópudeildarinnar í handknattleik karla. Leikurinn í dag hefst klukkan 17. Báðar viðureignir fara fram í Porec í Króatíu.
„Ég hef séð upptökur af leik liðsins á síðustu leiktíð en veit að talsverðar breytingar urðu á leikmannahópnum í sumar. Þess vegna er erfitt að taka mark á upptökunum. Þjálfarinn er hinsvegar sá sami og í fyrra. Þar af leiðandi er hægt að draga ákveðnar ályktanir af leiktstíl hans,“ sagi Snorri Steinn við handbolta.is kvöldið áður en Valur hélt til Króatíu á miðvikudagsmorgun.
„Við rennum blint í sjóinn. Þannig er það nú stundum í Evrópukeppninni, ekki síst í fyrstu umferðunum. Ég hræðist það ekki. Ég trúi því að við getum staðið í þessu liði og komist áfram. Ég verð að minnsta kosti mjög fúll ef okkur verður sópað úr keppninni, þrátt fyrir skakkaföll á hópnum,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, sem er án þriggja öflugra manna, þeirra Róberts Arons Hostert, Vignis Stefánssonar og Stivens Tobar Valencia.
Sem fyrr segir hefst leikur Vals og RK Porec klukkan 17 í dag og klukkan 16 á morgun, laugardag. Handbolti.is ætlar að fylgjast með leikjunum af fremsta megni.