Ívar Benediktsson skrifar frá Tíblisi, [email protected]
„Það verður að koma í ljós hversu stórt hlutverk ég fæ. Ég verð klár ef kallað verður á mig en auðvitað vill maður alltaf spila,” sagði Haukur Þrastarson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í Tíblisi en Snorri Steinn Guðjónsson landsliðþjálfari í handknattleik sagði í gær eftir að ljóst varð að Gísli Þorgeir Kristjánsson fór ekki með liðinu til Tíblisi vegna meiðsla og þar með fengi Haukur stærra hlutverk í fjarveru Gísla.
Á morgun klukkan 14 mætir íslenska landsliðið því georgíska í annarri umferð 3. riðils undankeppni EM karla í handknattleik í Tbilisi Arena, keppnishöll sem rúmar um 5.000 áhorfendur í sæti.
Íslenska landsliðið kom til Tíblisi um miðja síðustu nótt að íslenskum tíma og kom beint í morgunmat á hóteli sínu eftir að tafir bættu gráu ofan á svart við langt ferðalag. Haukur segir menn jafna sig á þessu þótt vissulega „hafi það verið bras“ að komast á leiðarenda.
„Við vorum á góðri æfingu áðan, borðum á eftir, nýtum kvöldið til undirbúnings og fáum góðan nætursvefn. Þá er ekkert til fyrirstöðu að mæta klárir til leiks á morgun,“ sagði Haukur ennfremur og viðurkenndi að það ríkti alltaf eftirvænting fyrir landsleikjum.
„Keppnishöllin lítur vel. Hún býður upp á stemningu. Nú er undir okkur komið að mæta klárir til leiks og vinna þennan mikilvæga leik, fara heim með sigur,“ sagði Haukur Þrastarson sem væntanlega verður leikstjórnandi íslenska landsliðsins á morgun ásamt öðrum Selfyssingi, Janusi Daða Smárasyni.
A-landsliðs karla – fréttasíða.