- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verða að leita í smiðju Viggós og Guðmundar Þórðar!

Hiligunnur Einarsdóttir, upp með fjörið. Mynd/Carina Johansen - EPA
- Auglýsing -

Það er ljóst að nýr kafli hefst hjá landsliðinu, þegar keppnin um „Forsetabikarinn“, 25. til 32. sæti á HM kvenna í Noregi, Svíþjóð og Danmörku hefst á fimmtudag í Frederikshavn á Jótlandi í Danmörku.

Það er næsta víst, að íslenska liðið verður ekki í þreytandi eltingaleik alla leikina, eins og gegn Slóveníu, Frakklandi og Angóla.

Stúlkurnar mæta mikli veikari liðum í keppninni um „Forsetabikarinn“, sem er óneitanlega í sjónmáli og tilvalið fyrir Forseta Íslands að fylgjast með; bregða sér á úrslitaleikinn!

Stúlkurnar eiga að vera í bílstjórasætinu og stjórna hraða leikjanna gegn Grænlandi (7. des.), Paraguay (9. des.) og Kína (11. des.). Og síðar í úrslitaleiknum um bikarinn 13. desember, gegn sigurvegararnum úr hinum riðlinum; Íran, Kongó, Kazakhstan eða Chile.

Til að ná árangri á lokasprettinum um „Forsetabikarinn“ verða Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari og Ágúst Þór Jóhannsson, aðstoðarþjálfari hans, að leita í smiðju Viggós Sigurðssonar og Guðmundar Þórðar Guðmundssonar, fyrrverandi landsliðsþjálfara karlaliðsins, en þeir félagar voru þekktir fyrir vel útfærðan leik. Viggó var sérfræðingur að byggja upp fjölbreytt hraðaupphlaup, sem komu í öllum regnbogans litum, sem sáust er hann þjálfaði FH, Hauka, Wuppertal, Flensborg og landsliðsins. Mikil fjölbreytni í hraðaupphlaupum Viggós vakti athygli.

Guðmundur Þórður var einnig útsjónasamur í útfærslu á hraðaupphlaupum og nýtingu á hornamönnum sínum í leikjum, eins og Viggó var einnig.

Það er ljóst að stúlkurnar verða að loka varnarleik sínum betur, sækja síðan hratt þegar knötturinn vinnst. Það verður að koma í veg fyrir að stúlkurnar tapi knettinum klaufalega í sóknarleik sínum. Til að koma í veg fyrir það verða stúlkurnar að nýta breidd vallarins og teyja á vörn andstæðinganna. Það verður að nýta vel hraða Þóreyjar Rósu Stefánsdóttur í hraðaupphlaupum og síðan að koma knettinum til hennar út í horn oftar en í leikjunum þremur gegn Slóveníu, Frakklandi og Angóla.


Það þarf að bæta sóknatleik liðsins betur, en skytturnar hafa leitað of mikið inn á miðjuna og þá hefur komið hik á leikinn vegna troðnings á þröngu svæði. Það verður að leika betur upp á skytturnar, sem verða þá að teygja á vörnum andstæðinganna með því að ná góðu samspili við hornamennina, þannig að línan opnast. Við það minnkar æsingurinn í þröngum stöðum og leikmenn fá betri sjóndeildarhring í sóknarleiknum; hætta að kasta knettinum beint í hendurnar á andstæðingnum.

Að sjálfsögðu er það sárt fyrir stúlkurnar að hafa ekki komist í milliriðil, þar sem sterkari mótherjar biðu; Austurríki, Noregur og Suður-Kórea. Það þýðir ekki að hugsa um það, heldur verður að ná meiri yfirvegun og stíganda í leikjunum sem eru framundan, með því að hafa hugfast: „Rólegan æsing!, takk fyrir. Upp með fjörið!“

Sigmudur Ó. Steinarsson.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -